28.07.1931
Neðri deild: 14. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í B-deild Alþingistíðinda. (71)

1. mál, fjárlög 1932

Sveinn Ólafsson:

Hv. þm. Vestm. gaf mér tilefni til að kveðja mér hljóðs. Að vísu veik hv. 2. þm. Reykv. lítillega að því, sem ég sagði hér í gær, en hann gerði það svo góðlátlega, að ég hafði ekki hugsað mér að taka upp andmæli. Hinsvegar virtist mér, þegar hv. þm. Vestm. fór að tala, eins og hann hefði vaknað við vondan draum á eldhúsdagsmorgni og úfinn í skapi. Svo mikið var hv. þm. niðri fyrir, og æ því þyngra varð honum, sem lengra leið á ræðu hans. Tel ég víst, að hin andlega líðan þm. sé ekki góð, heldur eins og þess, sem orðið hefir fyrir einhverskonar illri aðsókn og andvökum.

Skal ég þá víkja aftur að því, sem ég átaldi í ræðu minni í gær og beindi fyrst og fremst til hv. flm. till. á þskj. 118, XXVII, um 500 þús. kr. framlag úr ríkissjóði til atvinnubóta í kaupstöðum og kauptúnum. Ég átaldi ekki hv. flm. þessarar till. fyrir gáleysi í fjármálum, eins og hv. þm. Vestm. gaf í skyn, að ég hefði gert, heldur benti ég á það, að mér þætti viðeigandi, þegar um slíkar till. sem þessar er að ræða, að trygging væri heimtuð fyrir því, að fénu yrði varið til framkvæmda, sem bæru ávöxt á ókomnum tíma, en ekki til framkvæmda, sem gagnslitlar væru eða rentuðu sig seint eða aldrei. Þessa finnst mér þurfa að gæta, þegar svo stendur á sem nú.

Ég mun hafa látið orð falla eitthvað á þá leið, að atvinnuleysið væri sjálfsköpuð víti þeirra, sem nú þurfa að leita til ríkisins um hjálp út úr ógöngunum. Ég stend við þetta. Það eru mörgum sjálfsköpuð víti, að svo er komið sem komið er, þó að hinsvegar allir hafi ekki verið sjálfráðir þessara hluta. Þeir, sem fyrir áratugum fluttu frá öruggum atvinnuháttum sveitanna á mölina, eru nú flestir komnir undir græna torfu, en niðjarnir súpa seyðið af ráðabreytni feðra sinna, eins og svo oft áður, og er slíkt vorkunnarmál.

Það er í þessu sambandi margt að gera fyrir Alþingi og allan almenning þessa lands. Ég hygg, að ennþá hafi ekki verið tekið réttum tökum á þessu máli, þessum þjóðflutningum, ef svo mætti að orði kveða, og viðhorfi þeirra til ókomins tíma. Ég þóttist því hafa gilda ástæðu til þess að benda einmitt á jarðræktina sem það sjálfsagðasta og eðlilegasta starf, sem tekið yrði upp þegar svona stæði á, og féföngin tekin úr ríkissjóði. Nú vita það allir, að 1 ha. af sæmilega ræktuðu landi getur veitt einstaklingi allar nauðþurftir og það ríkulega, og það er á færi margra manna, sem nú búa við stopula atvinnu í bæjum og verstöðvum, að vinna fyrir sér og sínum með þessum hætti. Það er ómögulegt að segja annað en að fólkið hafi farið gálauslega að á undanförnum árum með því að hlaupa frá þeim þrautreyndu og tryggari atvinnuháttum og varpa framtíðarvonum á glæ eða svipula sjávargjöf. Mér þykir rétt að geta þess í þessu sambandi, að ég las nýlega fréttabréf, sem stóð í einu af tímaritum landsins. Fréttabréf þetta var úr Þingeyjarsýslu, og í því var m. a. þess getið, að 4–5 sveitaheimili í sýslunni væru algerlega kvenmannslaus að vetrinum, það væri ómögulegt að fá kvenfólk til heimilisverka, aðeins karlmenn væru á heimilum þessum, og yrðu þeir að inna af hendi öll heimilisstörf. Þetta er aðeins lítið sýnishorn öfugstreymisins og glapstiganna, sem fólkið gengur í misskilinni gæfuleit. Ég þekki mörg heimili, sem eiga í afarmiklum erfiðleikum vegna fólksfæðar á vetrum. Og jafnvel þó að fólk hafi ekki skortað í sveitum á sumrum, þá hefir það horfið á haustin, og þá einkum til Reykjavíkur og hinna stærri kaupstaða, þar sem sumarfeng öllum er eytt, oft mjög til lítilla þrifa eða menningarauka. Fyrir því held ég, að það sé mjög gild ástæða til þess, þegar á að fara að veita fé úr ríkissjóði til framfærslu, bjargar og atvinnu fólki þessu, að skilorðsbinda fjárveitingarnar og tryggja það, að vinnan geti komið að varanlegum notum. Það er að vísu svo, að hv. flm. till. á þskj. 118, um ½ millj. kr. til atvinnubóta, gera ráð fyrir því, að sveitarstjórnarvöld og aðrir, sem hlut eiga að máli, geri till. um meðferð fjárins. Það er þó spor í áttina. En hugsum oss, að einhverjum þessum stjórnarvöldum hugkvæmdist að verja fénu til leikhússbyggingar, til þess að koma upp spilabanka eða einhverri slíkri stofnun, þá væri jafnvel hefndargjöf veitt. Ég get þó vel ímyndað mér, að slíku yrði af mörgum bæjarbúum tekið þakksamlega, en ávöxtur þvílíkra framkvæmda mundi bæði torfundinn og hæpinn. Ég hverf ekki frá því, að þegar svona stendur á, þá er hreint og beint skylt að gera ráðstafanir til þess, að fénu verði vel varið og arðvænlega fyrir þjóðfélagið. Í því efni stendur landræktin næst, og hún hefir, flestum störfum fremur, uppeldisleg og göfgandi áhrif á hina yngri kynslóð, sem nú eyðir oft beztu árum æfinnar í stefnulaust slangur á mölinni, sér til óþurftar og föðurlandinu til lítilla nytja. Af því að ennþá er nokkur tími til þess er eldhúsdagur rennur upp, þá ætla ég ekki lengra út í þetta að sinni; ég þykist vita, að hv. þm. Vestm. o. fl. fái tækifæri til þess að ræða um mál eins og þetta á eldhúsdaginn, og þá getur verið, að tilefni gefist fyrir mig til þess að bæta nokkru við það, sem ég hefi nú þegar sagt.