28.07.1931
Neðri deild: 14. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í B-deild Alþingistíðinda. (72)

1. mál, fjárlög 1932

Jón Auðunn Jónsson:

Það var sérstaklega út af orðum hv. þm. Dal., að ég kvaddi mér hljóðs að þessu sinni. Hann segir, að samþm. hv. þm. Vestm. (JónasÞ: Ég sagði samflokksmenn), — hv. þm. sagði samþingismenn hv. þm. Vestm. — hefðu reynt að misnota útvarpjð og sagði, að presturinn í Grunnavík hefði kvartað undan því, að ekki fengist útvarpað talskeytum, og það væri af þeim orsökum, að við hefðum misnotað fréttaskeytin, sem við hefðum sent, og þess vegna yrðu menn nú að búa við það, að talskeytum fengist ekki útvarpað. Nú er það vitanlegt, að það þurfti ekki að stöðva allar talskeytasendingar, þótt einhverntíma hefði það komið fyrir, að sent hefði verið allharðort fréttaskeyti. Það væri sama og ef maður hefði í tali almennt farið hörðum orðum um andstæðing sinn, og þá mættu menn ekki tala lengur, ekki einu sinni um önnur efni! Nú veit hv. þm. Dal. það vel, að það er ekki af þeim orsökum, að við flokksmenn hv. þm. Vestm. höfum á neinn hátt misnotað útvarpið, að þessum skeytasendingum var hætt. En hitt er dálítið hlægilegt, þegar þessi hv. þm. segir, að hann láti ekki væna sig um hlutdrægni, maður, sem látinn var fara frá blaðamennsku við eitt allra mesta sorpblað landsins vegna þess, hve mikla hlutdrægni hann sýndi þar. Og það má nærri geta, að maðurinn er ekki vandur að meðölum, þegar hann sýndi yfirmönnum sínum svo mikla hlutdrægni. Og þegar svo langt var gengið, að hann gat ekki hangið við þetta blaðamennskustarf lengur, þá kemur hið undarlega fyrir, þessi sami maður er gerður að útvarpsstj., honum er veitt þetta starf, af því að hann hefir sýnt, að hann er ekki vegna hlutdrægni sinnar fær um að gegna blaðamennskustarfinu, og þess vegna þurfti nauðsynlega að koma honum frá því.

Ég hygg, að hv. þdm. muni hafa skilið það svo, að ég sem þm. N.-Ísf. sé eitthvað riðinn við þetta mál, þar sem bent er á, að prestur úr mínu kjördæmi hafi kvartað undan þessu. Þess vegna skora ég á hv. þm. Dal. að segja, hvenær ég hefi misnotað útvarpsskeyti eða loftskeyti.