14.08.1931
Efri deild: 29. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 875 í B-deild Alþingistíðinda. (744)

86. mál, embættiskostnaður sóknarpresta og aukaverk

Magnús Torfason:

Ég verð að játa það með hv. frsm., að ég lít á þetta frv. aðallega sem launauppbótarfrv., en að því er 2. gr. snertir, þá fer hún í bága við þá venju og skipan, sem verið hefir hjá öllum embættismönnum, sem hafa miklu meiri skrifstofukostnað. Sýslumenn verða t. d. að leggja sér til embættisbækur af skrifstofufé því, sem þeim er greitt, og í reikningum sínum til stjórnarráðsins eiga þeir að gera grein fyrir, hve mikið þeir hafi þurft að kaupa af bókum. Að því er snertir eyðublöðin undir lögboðnar skýrslur og embættisvottorð, þá hefir það verið svo, að þegar yfirboðarar heimta, að ákveðna skýrslu skuli gefa, þá eru send eyðublöð frá skrifstofu héðan að sunnan, annaðhvort frá hlutaðeigandi d. stjórnarráðsins, hagstofunni eða frá biskupi. Þessar embættisskýrslur, sem prestar gefa, eru mjög mikilsverðar, sérstaklega fyrir alla mannfræði hér á landi. Það er áreiðanlegt, að þessar skýrslur eru að mörgu leyti beztu uppspretturnar, sem menn hafa til þess að kynna sér sögu og ástand landsins á hverjum tíma. Þess vegna er það, að t. d. manntalsskýrslur, greftrunarskýrslur og giftingarskýrslur þurfa að vera vandaðar. Nú vita menn, að þessar skýrslugerðir hafa verið ófullkomnar á ýmsan hátt, en nú er farið að gefa út eyðublöð handa prestum, svo þetta sé nokkurnveginn í lagi. Og ég býst við, að haldið verði áfram á sömu braut og prestarnir fái eyðublöðin undir þessar skýrslur á venjulegan hátt, og sérstaklega er líklegt, að hin svo nefnda „ministerial“-bók verði merkileg, og þarf því að vera vel til hennar vandað. Ég lít svo á, að í stað þess að gefa samandregna skýrslu úr þeirri bók, þá eigi prestarnir að senda í lok hvers árs hreint og beint afrit af henni til prófastanna, og þeir senda svo biskupi, eins og skýrslur þessar hafa gengið hingað til. En þá kemur þetta þannig fram, að þessar bækur, ministerialbækurnar, verða í sérstöku formi og skýrslurnar verða í sama formi og eyðublöðin, þ. e. bækurnar verða eiginlega ekki annað en innbundin eyðublöð, eins og á sér stað í sýslumannaembættum. Þessi eyðublöð ættu prestar sjálfsagt að fá á hverju ári.

Ég legg áherzlu á, að þetta verði gert, því enn sem komið er getur slíkar skýrslur vantað hjá prestum, en það er áríðandi, að slíkar skýrslur séu á hverjum stað, svo hægt sé að ganga að þeim, því ég veit, að mönnum hefir þótt það vandræði að geta ekki fengið réttar skýrslur frá prestum.

Aðalskrifstofukostnaður presta yrði þá að kaupa þessar löggiltu embættisbækur í fyrsta sinn, og get ég ekki talið það eftir þeim, þar sem skrifstofukostnaður þeirra er ríflegur miðað við skrifstofuverk þeirra.

Það er talað hér um löggiltar embættisbækur. En hver á að löggilda þær, biskup, prófastur, eða á að löggilda þær í stjórnarráðinu? Mér finnst sennilegast, að biskup gerði það.

Ég er á móti þessu vegna þess, að það fer í bága við það, sem gerzt hefir hjá embættismönnum hingað til, og er ekki í samræmi við greiðslu skrifstofukostnaðar skv. launalögunum frá 1919.