14.08.1931
Efri deild: 29. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 879 í B-deild Alþingistíðinda. (747)

86. mál, embættiskostnaður sóknarpresta og aukaverk

Guðrún Lárusdóttir:

Það er vegna síðustu orða hv. 2. þm. Árn., að mig langar til að segja nokkur orð. Hv. þm. hafði yfir gamlan málshátt, sem allir þekkja og vita, af hvaða rót var runninn, og sízt fram kominn af velvild til presta. Oft hafa menn gripið til hans til að varpa rýrð að prestum, eða benda á fjársækni þeirra. En ég hygg, að nú orðið a. m. k. séu það ekki prestarnir íslenzku, sem lengst seilast ofan í fjárhirzlur ríkisins. Og það á því ekkert sérlega vel við að tala um „sálirnar þeirra, sem seint fyllist“.

Hv. þm. bar saman presta og sýslumenn. Það er allt of ólíku saman að jafna; allir vita, að sýslumenn hafa margföld laun á við presta og það er heldur ekki rétt að halda því fram, að prestar hafi engan kostnað af ferðum sínum.

T. d. hefir verið bent á það, að prestar í afskekktum héruðum verði að halda hesta til þess að ferðast á, og er það þeim töluverður kostnaður. Þar, sem góðir vegir eru, er auðvitað hægt að nota bíla, en vitanlegt er, að alltaf kostar sæti í bíl töluvert, jafnt fyrir prestana sem aðra ferðamenn.

Hvað embættisbókunum viðvíkur getur verið, að þær kosti ekki mikið, en ég held þó, að þær kosti svo mikið, að fátæka presta í rýru brauði muni um að höggva það úr launum sínum. Það getur því ekki talizt réttmætt að halda því fram, að rekstri prestsembættis fylgi enginn kostnaður. Hann er engu minni að tiltölu en kostnaður annara embættismanna. Við skulum taka til dæmis prest í afskekktu héraði að vetrarlagi. Hann verður ávallt að hafa hest á fóðrum, viðbúinn til þess að fara í embættisferðir sínar að jarða, skíra, gifta, húsvitja o. s. frv. Fyrir þetta fær presturinn að vísu aukaþóknun, en sú aukaþóknun hefir ekki æfinlega verið mikil. Einhverntíma fékk hann 2 kr. fyrir að skíra barn, og það þótt dagleiðir væri að fara. Og þegar presturinn þarf að hafa hest á járnum og fóðrum og borga þar að auki fylgdarmanni, þá sýnir það sig sjálft, að kostnaður hans er ekkert lítill. Ég tek þetta sem dæmi til þess að sýna, að það er ekki rétt að strika yfir þann kostnað, sem þessir menn hafa af embættisrekstri sínum, og láta þá borga það úr eigin vasa. Ég get því ekki litið svo á, að hér sé um launahækkun að ræða, heldur sé það fyrir ferðakostnað og skrifstofukostnað.