28.07.1931
Neðri deild: 14. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í B-deild Alþingistíðinda. (75)

1. mál, fjárlög 1932

Jón Auðunn Jónsson:

Það er náttúrlega gott, að hv. þm. Dal. vill nú fara að draga saman seglin. Í fyrra skiptið talaði hann um samþingismenn, en í síðara skiptið um samflokksmenn.

Hv. þm. talaði um orsökina til þess, að hætt var útvörpun talskeyta, og sagði að hún hefði verið sú, að maður í Norður-Ísafjarðarsýslu hefði einu sinni sent pólitískt fréttaskeyti gegnum útvarpið. Það má vel vera, að eitt slíkt skeyti hafi verið sent, en þrátt fyrir það sjá þó allir, hve mikil fjarstæða það er af ríkisstj. að rjúka til og banna að útvarpa almennum skeytum, eins og t. d. skeytum um læknisvitjanir, sem send hafa verið til Reykjavíkur til útvörpunar þaðan; og þessar skeytasendingar eru afaráríðandi t. d. í N.-Ísafjarðarsýslu, þar sem tveir hreppar eru án símasambands. Tilgangurinn með þessu banni getur ekki verið annar en ákveðið pólitískt augnamið, og mér þykir gaman að sjá, þegar þáltill. mín kemur til atkv. hér í þinginu, hvort menn vilja yfirleitt taka fyrir munn þeirra, sem verst eiga með samgöngur, þótt stj. hafi nú gert það. Það, sem hv. þm. talaði um kosningu mína, má hann auðvitað blygðast sín fyrir eins og flest annað, sem hann hefir sagt, því að það er víst, að kjósendur mínir eru yfirleitt stórum mætari menn en hv. þm. Dal., bæði til orða og verka.