03.08.1931
Neðri deild: 19. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 887 í B-deild Alþingistíðinda. (760)

45. mál, útflutningur á nýjum fisk

Frsm. (Sveinn Ólafsson):

Andmæli þau, sem fram hafa komið gegn till. n., eru að vísu ekki stórvægileg. Hv. flm. fann eiginlega þrennt að till. hennar. Fyrst og fremst þótti honum n. hafa verið smátæk um framkvæmdirnar, þar sem hún gerði ráð fyrir að byrja með þrem eða e. t. v. fleiri skipum, en ekki eins og í frv. stendur, hæfilega mörgum. Hver getur sagt fyrirfram, hvenær þau eru hæfilega mörg? Hv. flm. fannst það skemmd á frv., að n. leggur til, að þessara flutninga geti þær veiðistöðvar notið, þar sem félagsskapur myndast um fiskútflutning, og þá í nægilega stórum stíl til þess að útgerðin telji það borga sig að sinna því, eins þótt þessi félagsskapur sé ekki í samvinnusniði. Það, sem fyrir n. vakti þegar hún ákvað að gera ekki samvinnufélagsskapinn að skilyrði, var það, að í samvinnulögunum er svo mælt fyrir, að ákveðna tölu manna þurfi til þess að félagið geti heitið samvinnufélag. Ákvæði þetta hefði getað orðið þess valdandi, að vissar verstöðvar hefðu orðið útundan. með því að rígskorða þetta svo mjög. Í þriðja lagi fann hv. flm. að því, að n. hefði fellt niður ákvæði úr frv. um það, að stj. skyldi heimilt að veita lán úr ríkissjóði til dragnótakaupa. N. vildi eingöngu binda fjárveitingar til byrjunar við þá þörf, sem mest er aðkallandi á þessu augabragði, og hefir því fyrst nefnt til fiskumbúðir og það annað, sem hafa verður til þegar flutningar eiga að hefjast. N. lítur hinsvegar svo á, að ekki sé meiri ástæða til þess að veita lán úr ríkissjóði til þessara veiðarfærakaupa en yfirleitt þá til allra slíkra kaupa. Veiðarfæri eru, eins og kunnugt er, keypt um land allt af útgerðarmönnum, án opinbers atbeina, jafnvel oft mun dýrari tæki á skip en ein til tvær dragnætur, og eru engar ráðstafanir gerðar af hálfu þess opinbera til þess að styrkja útgerðarmenn til slíkra kaupa síðan niður féllu lánveitingar eftir hinni gömlu skipulagsskrá Fiskveiðasjóðs.

Nú er þess að geta um frv., að með því er í raun og veru aðeins verið að hugsa, um bráðabirgðaráðstöfun, sem gilda á fram yfir næsta nýár.6. gr. frv. tekur það fram, að lögin skuli endurskoðuð á næsta þingi. Þetta er því aðeins tilraun til þess að bjarga yfir byrjunarörðugleikana, og koma einhverju bráðabirgðaskipulagi á flutningana, meðan ekki eru mynduð svo öflug og örugg samtök, að framkvæmdunum sé borgið.

Ég finn ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þessar aðfinnslur hv. flm. Hann lýsti því líka yfir, að honum þætti betra en ekki, að n. hefði afgr. málið á þennan veg. En ég verð að víkja nokkrum orðum að aths. hv. þm. Borgf. Hann er að vísu sammála n. í öllum meginatriðum, en ýmislegt fann hann þó að, sem mér þykir ekki ástæða til að deila um eða þörf að lengja umr. um. Honum virtist ekki þörf á því að setja lagafyrirmæli um starfshætti eða athafnir skrifstofu þeirrar, sem gert er ráð fyrir að setja upp í sambandi við útflutninginn. N. leit samt svo á, að það væri, eins og það er í 4. gr. frv., rétt að gefa fyllri fyrirsögn um það, hvernig þessi skrifstofa starfaði og hvað hún ætti að hafa á hendi. Um það má auðvitað deila, hvort þörf sé almennt á slíkum ráðstöfunum vegna þessa útflutnings, en þessar fyrirsagnir binda engar framkvæmdir aðrar en þær sem nauðsynlegt er að hafa fastlega ákveðnar, meðan verið er að brjóta ísinn og koma kæliflutningnum í framkvæmd.

Þá kom fram fyrirspurn frá hv. þm. um það, hvernig skilja bæri þau orð í nál., að taka skyldi fisk fyrst og fremst frá þeim landshlutum, þar sem skilyrði skorti til að flytja út fiskinn, og þar með möguleika til þess að hagýta kælifisksölu. Yfirleitt hnígur öll þessi ráðstöfun um ísfisksölu að því að bæta úr skák fyrir þeim, sem skilyrði skortir til að hrinda henni í framkvæmd nú þegar á eigin spýtur, og n. hefir einmitt viljað leita að hagkvæmum ráðum í því efni. Hinsvegar er það ljóst, að ekki tjáir að setja dýr leiguskip í áætlanir til annara staða en þeirra, sem einhvern flutning hafa að bjóða og möguleika til greiðlegrar afgreiðslu þeirra. Einnig lítur n. svo á, að á þeim stöðum, þar sem þessi flutningur er nú þegar tekinn upp og samningum bundinn við innlenda eða útlenda menn, þar sé engin ástæða til að hefja samkeppni um flutningana, fyrr en þá síðar, ef þeir samningar misheppnast. Ég vona þess vegna, að hv. þm. Borgf. gruni ekki n. um neina undirhyggju eða það, að hafa ætlað að setja neinar þær verstöðvar hjá, sem annars hefðu skilyrði til að njóta góðs af flutningunum.