03.08.1931
Neðri deild: 19. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 890 í B-deild Alþingistíðinda. (761)

45. mál, útflutningur á nýjum fisk

Jóhann Jósefsson:

Það var aðallega út af fyrirspurn hv. þm. Borgf., sem ég kvaddi mér hljóðs. Að vísu hefir hv. frsm. n. svarað henni, en ég vil fyrir mitt leyti lýsa einnig minni afstöðu í málinu, þar sem ég hefi undirskrifað nál. án nokkurs fyrirvara. Í þessu máli hefi ég svipaðan skilning á nál. og hv. frsm., að þessa tilraun beri fyrst og fremst að gera þar, sem þörf er mest fyrir þennan útflutning, frá þeim stöðum, sem óska eftir og geta uppfyllt þau skilyrði, sem tiltekin eru í brtt. við frv., sem sé, að þar sé félagsskapur manna, sem hefir nægilegan bátafjölda að baki sér. Þetta eru höfuðlínurnar að því er mér skilst á brtt., en þar er ekki átt við sérstaka landshluta eða hafnir. Reynslan verður að skera úr því, hvaða staðir koma helzt til greina.

Annars má segja það um þetta mál almennt, að þess er ekki von, að frv. eins og þetta verði afgr. þannig, að allir hlutaðeigendur verði ánægðir með hvert einasta ákvæði þess, því að þetta er allmikið nýmæli hér á landi. Það, sem n. virtist skipta mestu máli, var það, að samtaka tilraun sé gerð af hálfu þess opinbera til þess að hrinda útflutningi á nýjum bátafiski af stað, og að það sé svo hóflega gert, að mikill kostnaður geti ekki hlotizt af í byrjun, og ennfremur þannig, að breytingar megi gera á fyrirkomulaginu án stórfellds kostnaðar. Í slíku máli sem þessu mætti eyða heilu þingi í að ræða um, hvaða aðferð væri bezt og hvort eitthvert ákvæði í þessu frv. eða brtt. n. væri ekki óþarft. Eitt dæmi um þetta er söluskrifstofan, sem ég fyrir mitt leyti álít, að ekki sé mikil þörf fyrir. En ég vildi ekki gera ágreining um það, hvort stj. fengi heimild til þess; þess verður að gæta, að það er ekki nema heimild að hafa þarna einn mann til að líta eftir og gæta að hagsmunum fiskeigenda. Ég vil ekki setja mig á móti þessari heimild, því að það getur komið í ljós, að þörf verði á þessari skrifstofu, og ég hefi ekki svo mikla þekkingu á þessu máli, að ég vilji með öllu aftaka þessa heimild. Sama er að segja um fleira í þessu máli, t. d. að Skipaútgerð ríkisins sé falin umsjón með flutningaskipunum. Þau verða auðvitað að vera undir einhverri stj., og ég tel, að til bráðabirgða megi vel una við það, að Skipaútgerð ríkisins annist þessar framkvæmdir. Komi það í ljós, að það tefji aðrar framkvæmdir hennar eða að afskipti hennar séu ófullnægjandi, þá er hægðarleikur að skipta um, því að eins og hv. frsm. minntist á, þá á að endurskoða þessi lög innan skamms. Framkvæmd þessi getur ekki verið yfirstjórnarlaus að öllu leyti eða afskiptalaus af ríkisins hálfu, þar sem ríkissjóði er ætlað að leggja talsvert fé fram, sem sagt, það ber að líta á till. n. eins og till. til bráðabirgðaráðstafana, eins og fyrsta sporið til að koma á föstum og reglubundnum ferðum með nýjan fisk frá Íslandi á heimsmarkaðinn. Hv. flm. sagði í vetur, að frv. væri frumsmiði. Sama má segja um till. n., þær eru frumsmíði. Lega landsins og fjarlægð til brezka markaðsins gerir það að verkum, að við höfum talsvert aðra aðstöðu í þessu efni heldur en Danir og Norðmenn. Frá Noregi hefir verið sendur fiskur með áætlunarskipum á brezka markaðinn nú í mörg ár. Norðmenn hafa um fleiri leiðir að velja en við og senda fiskinn bæði landveg og sjóveg, og Danir senda mikinn bátafisk með bílum beint inn í Mið-Evrópuríkin. Við verðum aftur á móti að halla okkur eingöngu að skipaflutningi, sem ætti að reynast eins haldgóður, þegar fram í sækir. Úr öllu þessu getur reynslan ein skorið.

Með öllum þessum forsendum álít ég vel forsvaranlegt að fylgja frv. með þeim breytingum, sem n. kemur með. N. er sammála um till., og þýðir það ekkert annað en að hún vill vera samtaka um að hrinda þessu nauðsynjamáli af stað, en vill ekki eyða tímanum í gagnslausar deilur um það, hvernig eigi að hjálpa bátaútveginum í þessu efni.

Ég vona, að þetta þing endi ekki að þessu máli óloknu, því að hér er að ræða um þá hjálp til handa útveginum, sem við megum ekki lengi án vera.