03.08.1931
Neðri deild: 19. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 896 í B-deild Alþingistíðinda. (765)

45. mál, útflutningur á nýjum fisk

Forsrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég vil geta þess út af fyrirspurn hv. þm. Seyðf., að ég tel sjálfsagt, þegar hv. Alþ. hefir sett heimildarlög sem þessi, sem hér eru á ferðinni, að láta framleiðendur njóta þess stuðnings, sem um er rætt. Ég get fallizt á brtt. hv. sjútvn. að öðru en því, að ég tel réttara, að stuðningurinn sé bundinn við samvinnufélagsskap. Ókostum þeim, sem bent hefir verið á í sambandi við það, má auðveldlega bæta úr með sérstökum undanþágum. Vil ég beina því til hv. n., að hún taki þetta til athugunar til 3. umr.