03.08.1931
Neðri deild: 19. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 898 í B-deild Alþingistíðinda. (768)

45. mál, útflutningur á nýjum fisk

Jón Auðunn Jónsson:

Hér er um svo smávægilega tilraun að ræða — aðeins 3 skip — , að það er ekki nærri helmingur þess, sem þyrfti til þess að það kæmi að fullum notum. Þetta er aðeins tilraun, sem gerð er til að hægt sé að stofna til útflutnings á næsta hausti. Þess vegna væri það ekki vel farið, ef þeir, sem ekki geta stofnað samvinnufélag, gætu ekki notið þess stuðnings, sem lögin gera ráð fyrir. Það væri illa farið, ef þeir, sem kaupa vilja kassa, gætu ekki komizt að.

Eftir þeirri þekkingu, sem við höfum hlotið af þessum hlutum, þá má okkur vera það ljóst, að það þarf að setja menn í öll þau sjávarþorp, sem kassaflutningur væri frá, til að sjá um kasseringu og sorteringu. Í mörgum þeirra er enginn kostur þeirra manna, sem þekkingu hafa á þeim efnum. Hér eru til togaramenn, er kunna að slægja fisk og vita, að það þarf að vera mismunandi. eftir því hver fiskurinn er. En það er ýmislegt fleira, sem þarf að aðgæta. Eins og hv. þm. Vestm. tók fram, þá ver slorhúðin fiskinn í ísnum. Þess vegna má hann ekki vera svo gamall, að slorhúðin sé af. Þess vegna má ekki þvo hann fyrr en rétt áður en hann er lagður í ísinn. Annars er hætta á því, að hún sé eydd og haldi ekki fiskinum við í ísnum.