03.08.1931
Neðri deild: 19. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 899 í B-deild Alþingistíðinda. (770)

45. mál, útflutningur á nýjum fisk

Haraldur Guðmundsson [óyfirl.]:

Út af því, sem hv. þm. Vestm. sagði, vildi ég segja nokkur orð. Hann sagði, að það væri um að gera, að það væri látið laust og óbundið, hvort stuðningurinn væri veittur til samvinnufélaga eða sölufélaga, sem stofnuð væru á öðrum grundvelli, og sjálfsagt væri gert ráð fyrir því, að sjómennirnir væru með í félagssamtökunum. En ég vil benda á það, að ef hlutafélag væri stofnað með þetta fyrir augum og þótt hluturinn væri ekki nema 25–50 kr., þá er það nóg til þess að útiloka einhverja þeirra frá þátttöku. Alstaðar munu fást nógir menn til að loka sjómenn og fiskimenn úti.

Segja má, að þótt stuðningurinn sé bundinn því skilyrði, að um samvinnufélag sé að ræða, þá hafi sjómenn ekki skyldur til að ganga í félagið, heldur aðeins rétt. En þar sem þetta félag myndi ekki þurfa samábyrgð félaganna, þá sé ég ekki, hvað því gæti verið til fyrirstöðu, að þeir gengju í þennan félagsskap. Ég sé heldur enga ástæðu til að vera á móti samvinnuákvæðinu, þótt gera mætti ráð fyrir, að á einhverjum stað væri ekki hægt að koma því við að stofna samvinnufélag, þar sem stuðningurinn verður svo lítill, að ekki verður hægt að veita hann nærri því öllum þeim, sem þörf væri. En ég tel sjálfsagt, að þannig sé frá lögunum gengið, að það sé algerlega tryggt, að þau verði til hagsbóta einnig fyrir sjómennina. Ég tel það mjög þýðingarmikið atriði, að fyrsta tilraunin sé byggð á heilbrigðum grundvelli. Ég tel þetta þýðingarmikið atriði og tel sjálfsagt, að fyrsta tilraunin sé byggð á þeim rétta grundvelli, að þetta verði til að hjálpa sjómönnum og fiskimönnum, en ekki þeim, sem vilja græða fé á kostnað annara.