03.08.1931
Neðri deild: 19. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 899 í B-deild Alþingistíðinda. (771)

45. mál, útflutningur á nýjum fisk

Jóhann Jósefsson:

Ég vildi aðeins geta þess, að þó að ég hafi hér bent hv. flm. og hæstv. forsrh. á ýmsa annmarka, sem kunna að vera á því að binda félagsskapinn við eitthvert ákveðið snið, þá er það ekki meining mín að vera eindregið á móti þessum félagsskap. Mér skilst líka á hv. 1. þm. Skagf., að hann ætli að hlaupa í skarðið fyrir sjútvn. og koma með brtt. í þá átt, og er líklegt, að n. verði þakklát fyrir, að hann ætlar að taka af henni ómakið í þessu efni!

Mér virðist, að ræða hv. flm. hafi hnigið að því, að hann með þessu frv. hafi ekki fiskimenn almennt fyrir augum, heldur sérstaka staði, þar sem samvinnufélagsskapur er, og þess vegna vilji hann halda svo fast við að rígbinda frv. við þennan sérstaka félagsskap. Hinsvegar er svo um mig, og ég vona, að það sé eins um hv. samnm. mína í sjútvn., að ég hefi fiskimenn almennt fyrir augum, og við höfum sett þetta í svona víðan ramma til þess að sem flestir geti haft aðgang að flutningnum. Það er nefnilega svo, að í till. hv. flm. í frv. felst takmörkun á því, hvaða sjómenn skuli njóta þessara fríðinda frá ríkissjóði, en ekki nein rýmkun.

Það er nú svo, að fiskveiðar landsmanna hafa komizt fram á þennan dag, þó þær hafi ekki verið reknar með þessu svokallaða samvinnufélagssniði, og hefir ekki ennþá verið sýnt eða sannað, að samvinnusnið væri það bezta við fiskiveiðar.

Annars hefi ég ekki hugsað mér að gera formsatriði að deilumáli í þessu efni. En ég var svo einfaldur í till. mínum, að ég hélt, að framkvæma mætti þetta í ýmsum veiðistöðvum á þann hátt, að vissir bátar, sem annars gefa sig að því að veiða fyrir ísfiskmarkaðinn, mundu mynda með sér fast samlag um að láta saman fisk sinn í kassa til að koma honum í þennan útflutning, og hefðu sölusamlag, sem ekki væri margbrotnara en svo, að hver sending væri gerð upp að söluferðinni lokinni. Þetta hélt ég, að gæti nægt til að byrja með, og bjóst við, að það væri nægilega tryggt á þessum stöðum, þar sem fiskurinn verður tekinn.

Það, sem hér verður að líta á, er það, að þessa tilraun á ekki að gera nema þar, sem fiskveiðar eru stundaðar og tryggt, að fiskur sé fyrir hendi þegar skip koma, og það ætti að vera bezt tryggt með því, að þeir fiskimenn tækju saman, sem líklegastir eru til að afla fiskjarins. Ég sé ekki, að það ætti að verða betur tryggt, þó knúð sé fram, að það sé með samvinnusniði. Ég vil í því sambandi benda á það, að það mun reynast erfitt að koma á gagnkvæmri samábyrgð fyrir þá menn, sem eru aðeins um stundar sakir í einni eða annari veiðistöð. Til þess að gera þeim mögulegt að eiga í þessum vörusendingum, held ég, að bezt væri að mynda samlag, sem starfaði fyrir vertíðina og gerði upp eftir hverja söluferð.

Ég skal svo ekki þreyta þolinmæði hæstv. forseta lengur, en eftir yfirlýsingu þessara „teoretikara“, sem talað hafa, er ég viss um, að fyrir þeim vakir meira „teori“ en það praktiska líf. En ég vil fremur reyna að mynda mér skoðun um það, hvernig hlutirnir verða í framkvæmdinni en hvernig þeir eru í „teoriunni“.