14.08.1931
Efri deild: 29. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 904 í B-deild Alþingistíðinda. (783)

45. mál, útflutningur á nýjum fisk

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Þetta frv. er komið frá hv. Nd. og hefir nú legið fyrir sjútvn. þessarar d. til athugunar. Efni þess er að heimila ríkisstj. að gera ýmsar ráðstafanir til þess að greiða fyrir útflutningi á ísvörðum fiski. Ég geri ráð fyrir, að mönnum blandist ekki hugur um, að eins og nú er ástatt með sölu sjávarafurða, þá beri brýna nauðsyn til þess, að hafizt sé handa um að gera allt sem hægt er til þess að nota markaðinn fyrir ísvarinn fisk. En hingað til hefir almenningur ekki átt kost á því þar, sem verð hafa verið út smærri skip til fiskiveiða, þótt þessi markaður sé nú einn hinn öruggasti. En að vísu er það svo um þennan markað, að hann er nokkuð breytilegur eftir árstíðum, en undir öllum kringumstæðum munu þó líkurnar meiri til þess að geta komið fiskinum í peninga, ef hægt er að flytja hann til neytenda á þann hátt, sem hér er gert ráð fyrir. Það hefir því orðið einróma álit sjútvn., að nauðsyn bæri til, að slíkar ráðstafanir, sem í frv. felast, verði heimilaðar ríkisstj., og væntir n. þess, að tiltækilegt verði að koma í framkvæmd nú þegar einhverju af því, sem frv. heimilar stj., ef það nær fram að ganga.

Það er gert ráð fyrir, að byrjað verði þannig, að ríkisstj leigi, ef mögulegt er, a. m. k. þrjú skip til flutninga á þessari vörutegund. Þarf ekki að búast við, að þetta verði ríkissjóði til mikilla aukinna útgjalda, ef allt gengur sæmilega. Það má gera ráð fyrir, að hægt verði að láta flutningsgjaldið af fiskinum vega á móti skipaleigunni og öðrum kostnaði að mestu leyti. En þó mun nauðsynlegt, að ríkissjóður leggi í byrjun fram fé til þess að hrinda málinu í framkvæmd, og sérstaklega mun reynast nauðsynlegt að veita styrk til umbúðakaupa um fiskinn, ef nauðsynlegt reynist að flytja hann í umbúðum. Þetta er á byrjunarstigi og því erfitt að segja fyrirfram, hvernig takast muni, en undir núverandi kringumstæðum er þessi ráðstöfun lífsnauðsyn fyrir sjávarútveginn. Ég vænti því fastlega, að hv. d. verði sjútvn. beggja d. sammála um það að láta þetta frv. ná fram að ganga, í þeirri von, að það mætti að nokkru gagni koma fyrir annan aðalatvinnuveg okkar Íslendinga, sjávarútveginn.