03.08.1931
Efri deild: 19. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 906 í B-deild Alþingistíðinda. (790)

168. mál, Útvegsbanki Íslands h/f á Ísafirði og Akureyri

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Ég get tekið það fram við hv. 1. landsk., að ég hefi ekki í huga að brigða nein loforð við hann um athugun á málinu. En ég sé ekki ástæðu til að vísa málinu til n., þó að hún hafi lofað að líta á till. hans.

Hv. 1. landsk. taldi það óviðeigandi af Alþ. að taka þessa ákvörðun að fornspurðum þeim mönnum, sem hlut eiga að máli. Á hann þar auðvitað við þá, sem lögðu fé í Útvegsbankann.

Ég verð nú að segja það, hvað mig snertir, að ég á engra sérstakra orsaka að gæta þar. Ég get lýst því yfir, að ég var á móti þeirri ráðstöfun, sem tekin var um Íslandsbankann. Ég get ekki fallizt á það með hv. 1. landsk., að þingið beiti hörku í þessu máli, þó að það verði við tilmælum um að veita Landsbankanum heimild til að kaupa þessa víxla. Ég lít svo á, að þar sé þingið að verða við tilmælum þeirra hlutaðeigandi manna, sem bera bezt skyn á málið. Þetta er lausn, sem þingið má ekki ganga framhjá. Og þó að aðrar lausnir mætti finna, þá er vafasamt, að Alþ., eins og það er nú skipað, sé færara að dæma um lausn á þessu máli en hlutaðeigandi bankastjórnir.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða meir um málið. Ég býst við, að hæfilegur tími verði milli umr., en umræður við 1. umr. eru afarnauðsynlegar, þar sem málið kemur frá nefnd og verður ekki athugað þar meira, að undanteknum þeim till., sem hv. 1. landsk. kann að bera fram. Annars á hér sæti í d. einn af bankastjórum Útvegsbankans, og ef honum finnst öðruvísi að farið en hann telur rétt, þá lætur hann vonandi til sín heyra.