03.08.1931
Efri deild: 19. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 908 í B-deild Alþingistíðinda. (792)

168. mál, Útvegsbanki Íslands h/f á Ísafirði og Akureyri

Einar Árnason:

Ég ætla aðeins að gera fáeinar aths. við ræðu hv. 1. landsk. Hann telur, að verið sé að ganga á rétt þeirra manna, sem lagt hafa fé í Útvegsbankann, ef útibúin verða lögð niður. En ég er alls ekki viss um, að svo verði, þótt þetta frv. verði samþ. En þegar ræða skal um þetta mál, má ekki einblína á þá hlið, sem snýr að einstökum mönnum. Aðalatriðið er það, hvort hægt sé að reka útibúin með hagnaði. Og ef svo er ekki, er það mikið álitamál, hvort beri að halda þeim uppi.

Ríkissjóður hefir lagt fram nokkrar milljónir sem hlutafé í þennan banka, og því er það eðlilegt, að Alþ. vilji hlutast til um, að honum sé sem bezt borgið fjárhagslega. Hvað því viðvíkur, að ef til vill mætti hjálpa bankanum með seðlainndrætti, og leið þeirri. er hv. 1. landsk. vildi láta fara, að fresta málinu, þá tel ég það enga leið út úr vandræðunum að fresta slíkum bráðnauðsynlegum framkvæmdum. Mér finnst yfirleitt ekkert vera því til fyrirstöðu, að þetta frv. verði samþ. óbreytt, þar sem það er bara heimild, sem farið er fram á, og ekki verður notuð, nema bankastj. sjái, að það sé nauðsynlegt fyrir fjárhagsafkomu bankans sjálfs.