28.07.1931
Neðri deild: 14. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 146 í B-deild Alþingistíðinda. (80)

1. mál, fjárlög 1932

Jóhann Jósefsson:

Hv. l. þm. S.-M. hélt, að ég hefði orðið fyrir aðsókn í nótt, og að ég hefði þess vegna verið umsvifameiri en ella, þegar í deildina kom. Ég held, að þau áhrif, sem ég varð fyrir af ákveðnum ummælum þessa ágæta og virðulega þm., geti ekki á þessu stigi málsins talizt aðsókn, því að þessi hv. þm. er, eins og vitanlegt er, ekki á því tilverustigi, að áhrif frá honum geti nefnzt því nafni. Nei, það sem vakti mig til umhugsunar um ástandið í heild sinni, var það, sem ég hefi áður drepið á, að þessi ágæti þm. er að bera mér gáleysi á brýn að þarflausu. Það getur verið, að það sé rétt hjá hv. 1. þm. S.-M., að það fólk, sem atvinnulaust er á ýmsum tímum, eigi sjálft nokkra sök á því, kannske bæði fólkið sjálft og þeir, sem eru forráðamenn þess í kaupkröfum o. s. frv. Ég skal ekki deila um það, það skiptir ekki miklu máli hér. Það sem um er að ræða, er að gera ráðstafanir til að bjarga mönnum úr neyð og vandræðum. Ég sé ekki, að það þýði mikið að leggja það fyrst og fremst niður fyrir sér, hvort fólkið á sjálft sök á þessum vandræðum.

Hv. frsm. og hv. 1. þm. Skagf. ber ekki saman um, hvernig líta eigi á jarðræktarstyrkinn, sem bændur fá samkv. jarðræktarlögunum. Hv. frsm. viðurkenndi, að það mætti með nokkrum rétti telja þetta styrk til atvinnubóta. Því verður ekki neitað, að jarðræktarstyrkurinn er til bóta atvinnu á þeim stað, sem hann er veittur. Þetta, sem ég benti á, kom hv. 1. þm. Skagf. til að rjúka upp með skammir um sjávarútveginn. Ég ætla nú ekki að stofna til metings í þessu. Ég veit ekki, hvað hv. 1. þm. Skagf. á að baki sér af afrekum á atvinnumálasviðinu. Ég trúi, að hann sé kennari við bændaskólann fyrir norðan, en nú gerði hann sig að dómara yfir atvinnuvegunum. En það var ekki annað en það, sem hann og hans nótar kunna á fingrum sér. Þar var sami gusturinn til sjávarútvegsins, sami rógurinn og dylgjurnar sem Tíminn alltaf flytur. Það var ekkert frumlegt í því, sem, hv. þm. sagði. Ég get bent á það, að sjávarútvegsmenn hafa staðið fast við hlið bænda í vandræðum þeirra. Það er því ástæðulaust fyrir okkur, sem rekum atvinnu við sjóinn að taka þegjandi við slíkum gusum. Það er svo með hv. þm. eins og hið fornkveðna segir, að „þeir tala mest um Ólaf kóng, sem hvorki hafa heyrt hann né séð“. Þeir, sem sitja við jötuna, geta kastað grjóti til þeirra, sem vilja styðja sjávarútveginn. Þeim er það óhætt, þeir fá fóðrið sitt fyrir því.

Ég á nú aðeins eftir að beina fáeinum orðum að hv. frsm. fjvn. Hv. frsm. virðist líta svo á, að ég og hv. 2. þm. Reykv. viljum undanskilja sveitar- og bæjarfélög frá framlögum til atvinnubóta. En eins og hv. 2. þm. Reykv. hefir tekið fram, þá er okkur ljóst, að hér er ekki að ræða um annað en aukalega fjárveitingu. vegna sérstakra vandræða. Það er ljóst, að bæjarsjóður verður að leggja fé til verklegra framkvæmda engu að síður. Það hefði eflaust fengið betra hljóð, að féð yrði veitt gegn framlagi úr bæjarsjóði. En þetta álít ég ekki hægt að ákveða, því að þá myndu sum bæjarfélög e. t. v. alveg fara á mis við styrkinn. En við álítum ekki, að það eigi að undanskilja bæjarfélög undan neinni kvöð.

Ég var nærri því búinn að gleyma hv. þm. Dal. Það er með hann eins og karlinn, sem kom frá Ameríku og sagði, að ekki mætti nefna þar „strike“ svo að allir legðu ekki niður vinnu. Eins er með hv. þm. Dal. Það má ekki nefna útvarpið svo að hann umhverfist ekki. Mér þykir leitt, ef ég hefi misboðið þessum háa embættismanni. Hv. þm. lét á sér skilja, að þessir embættis- og starfsmenn þyldu ekki, að fundið væri að störfum þeirra. Hv. þm. ætti að muna eftir hinni stóru fyrirmynd, fyrrv. dómsmrh. Hann hefir ekki haft annað frekar fyrir stafni á þingi en ráðast á fjarstadda embættismenn, eins og t. d. dómara hæstaréttar. Það er því ekki leiðum að líkjast. En ég sagði nú aðeins, að „hlutleysið“ hefði víst ekki kostað ríkið lítið. En það, hvernig hv. þm. Dal. bregzt við ummælum mínum, sýnir, hve hlutleysið er gæsalappað í huga hans.