15.08.1931
Neðri deild: 30. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 909 í B-deild Alþingistíðinda. (802)

168. mál, Útvegsbanki Íslands h/f á Ísafirði og Akureyri

Frsm. (Halldór Stefánsson):

Í nál. fjhn. er vísað til grg. og fskj. frv. um ástæðurnar, sem liggja til grundvallar fyrir því. Frv. er borið fram til þess að gera Útvegsbankanum kleift að fullnægja innlausnarskyldu sinni á seðlum, og hefir náðst samkomulag milli bankanna, að það gæti orðið á þann hátt, sem hér er farið fram á, nefnil. að Landsbankinn keypti nokkurn hluta af lánum og víxlum útibúa Útvegsbankans á Akureyri og Ísafirði, sem nægði fyrir því, sem Útvegsbankinn þarf að draga inn. Þessi er ástæðan til þess, að þetta frv. er komið fram, og virðist það mjög viðunandi lausn á þessu máli. — Út af fyrirspurn, sem hv. þm. N.-Ísf. bar fram við 1. umr. þessa máls, þess efnis, hvort ætlun bankaráðsins væri sú, að leggja niður útibúin á þessum stöðum, hefi ég snúið mér til bankastj. Útvegsbankans og spurzt fyrir um þetta efni. Ég hefi nú í höndum svar bankastj. og ætla að lesa upp þann kafla, sem þetta áhrærir, með leyfi hæstv. forseta:

„Því miður er lánastarfsemi útibúa Útvegsbankans á þessum stöðum sama sem engin. Útbúin eru því lítill styrkur fyrir atvinnulíf þessara staða. Með því að þau starfa hinsvegar nær eingöngu með fé frá aðalbankanum, eru þau töluverð byrði á honum. Í stað þess því að draga inn lán, til að geta dregið inn seðla Íslandsbanka, sem eingöngu gæti skeð með miklu raski á atvinnulífinu, hefir bönkunum komið saman um, að Landsbankinn fengi að setja seðla út í þessu skyni, en Útvegsbankinn dragi inn jafnmikla seðla.

Þann 31. júlí síðastl. skuldar útibúið á Akureyri kr. 1669913,65 og útibúið á Ísafirði kr. 23206844,85 til aðalbankans, eða samtals kr. 3990598,50. Með því að inndráttur seðlanna nemur 4 millj. kr. að frádregnum 1,5 millj. kr. gullforða, eða alls 2500000 kr., yrði því eftir af skuld þessara tveggja útibúa um 1500000 kr. við aðalbankann, og auk þess fé það, sem bankinn starfar með úr nærliggjandi héruðum, sem mun nema um 600000 kr. Að þessu athuguðu virðast engin líkindi til þess, að hægt verði að leggja niður útibúin, þó yfirborðið af lánum færðist yfir til Landsbankans og starfsemi þeirra breytist þar með. Mundi inndráttur á þessum rúml. 2 millj. kr., er eftir standa, varla geta verið svo hraður, að hægt sé að tala um, að útibúin verði lögð niður nema á nokkuð mörgum árum, enda þótt annað væri ef til vill æskilegra.

Að öðru leyti heyrir þetta mál undir bankaráð vort“.

Engar líkur er því til þess, að hægt verði að leggja útibúið niður fyrst um sinn, þótt yfirborðið af lánum færðist yfir til Landsbankans. Inndráttur gæti aldrei orðið svo hraður, að hann tæki ekki nokkuð mörg ár. Þetta atriði heyrir undir bankaráðið.