29.07.1931
Efri deild: 15. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 912 í B-deild Alþingistíðinda. (818)

90. mál, ríkisborgararéttur

Ingvar Pálmason:

Þetta frv. er næstum því shlj. frv., sem lá fyrir Alþingi síðastl. vetur. Það var þá komið í gegnum hv. Nd. og til n. í þessari hv. d., og eftir því, sem ég bezt man, hafði hún skilað nál. um málið. Ég átti þá sæti í allshn. og skrifaði undir nál. með fyrirvara. Áður en mál þetta gengur lengra, ætla ég að skýra frá, í hverju þessi fyrirvari var fólginn.

Ég hafði þennan fyrirvara vegna þess, að ég vildi fá það fram, hvern skilning ætti að leggja í síðustu mgr. frv., en hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ríkisborgararéttur þessara manna er þó því skilyrði bundinn, að þeir áður en ár er liðið frá því, er lög þessi öðlast gildi. sanni fyrir dómsmálaráðherra, að þeir eigi ekki ríkisborgararétt þar, sem þeir eru fæddir“.

Ég geri ráð fyrir, að þetta beri að skilja þannig, að hlutaðeigandi menn sanni það fyrir stj.. að ríkisborgararéttur þeirra í öðru landi sé því ekki til fyrirstöðu, að þeir öðlist ríkisborgararétt hér, en ekki beri að skilja það á þann veg, að þeir séu nú ríkisborgararéttarlausir, þótt orðalagið útiloki ekki þann skilning.

Eins og sjá má af frv., eru flestir þeirra manna, sem fara hér fram á að fá íslenzkan ríkisborgararétt, fæddir í Noregi. Ég aflaði mér því á síðasta þingi upplýsinga um, hve auðvelt þeim myndi vera að sanna, að þeir ættu ekki ríkisborgararétt þar. Ég fann því aðalræðismann Norðmanna hér, og var hann fús á að veita mér upplýsingar um þetta. Hann lánaði mér í því skyni lög um ríkisborgararétt í Noregi, hversu menn fá hann og missa, til yfirlestrar. Segir þar m. a., að menn missi norskan ríkisborgararétt, ef menn öðlist ríkisborgararétt í öðru landi. Það, sem ég vil fá að vita, er það, hvort þetta ákvæði norsku laganna sé þeim næg sönnun til þess að fá ríkisborgararétt hér. Annars gæti þeim orðið örðugt um sönnunina.

Ég veit, að 2 af þessum mönnum sneru sér til aðalræðismanns Norðmanna hér og báðu hann um aðstoð til þess að sanna, að ríkisborgararéttur þeirra í Noregi væri því ekki til fyrirstöðu, að þeir gætu öðlazt ríkisborgararétt hér, en hann taldi tvímælalaust, að bezta sönnunin fælist í þessari norsku lagagr.

Um 2 af umsækjendunum er það að segja, að annar er fæddur í Þýzkalandi, en hinn í Rússlandi. Ég er ekki svo fróður, að ég viti þau skilyrði, sem þeir verða að uppfylla til þess að öðlast hér ríkisborgararétt. Ég vil því fá það fram hér, hverjar sannanir Alþingi álítur þá þurfa að færa og hvort ákvæði norsku laganna séu Norðmönnunum ekki næg sönnun. Ég óska eftir því, að hv. allshn. svari þessu.