07.08.1931
Efri deild: 23. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 915 í B-deild Alþingistíðinda. (834)

53. mál, efnivara til iðnaðar

Frsm. (Jón Þorláksson):

Nefndin hefir athugað þetta frv. og borið það saman við frv., sem samþ. var í þessari d. á síðasta þingi. Finnur n. ekkert við það að athuga og leggur til, að það verði samþ. óbreytt.

Vegna þeirra hv. þdm., sem ekki sátu síðasta þing, vil ég taka það fram, að aðalatriði frv. er það, að þegar tilbúinn hlutur er tollfrjáls, ef fluttur er til landsins, þá geti iðnaðarmenn, sem búa þann hinn sama hlut til hér í landinu, fengið endurgreiddan toll af þeim vörum, sem til þess þarf að búa hann til. Þetta er gert til að forðast það, að tollalöggjöfin verði til verndar erlendum vörum. Sömuleiðis ef hluturinn er tollaður lægra en efni það, sem til hans þarf, þá endurgreiðist iðnaðarmanninum tollmismunurinn.

Svo er ráð fyrir gert, að fjmrn. setji reglur um það, hvernig þessu verður framfylgt. En ef óttast yrði, að það yrði erfitt að hafa eftirlit með, að þetta yrði ekki misnotað, þá má benda á það, að iðnaðarmaðurinn verður að sanna rétt sinn til endurgreiðslunnar.

Sé ég svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál, en legg til, að frv. verði samþ. óbreytt.