28.07.1931
Efri deild: 14. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 917 í B-deild Alþingistíðinda. (848)

125. mál, fasteignamat

Flm. (Einar Árnason):

Frv. að mestu shlj. þessu var borið fram á síðasta þingi af fjhn. Ed., og var það gert að tilhlutun stj. Frv. kom þá svo seint fram, að það varð ekki útrætt. Ég hefi nú leyft mér að bera það fram af nýju, því eftir að hafa kynnt mér hið nýja fasteignamat, álít ég nauðsynlegt, að n. sé sett til að athuga það og samræma það milli sýslna og héraða. Ég er hræddur um, að það kunni að vera allmikið ósamræmi í því milli hinna einstöku sýslna á landinu, og því sé nauðsynlegt að samræma það.

Ég hefi gert ráð fyrir, að þessi nefnd yrði skipuð aðeins 3 mönnum. Ég geri ráð fyrir, að niðurstaðan verði eins góð og þó fleiri væru í n., en þetta verður ódýrara.

Það er eins og menn muna, að til að athuga og samræma fasteignamatið, sem framkvæmt var á árunum 1916–1918. var sett yfirmatsnefnd, skipuð 5 mönnum. En þau lagaákvæði geta ekki gilt fyrir þetta mat, sem nú var verið að framkvæma. Þess vegna þarf að setja sérstök lög um þetta nú, ef þm. vilja láta einhverja endurskoðun fara fram.

Ég vona, að þetta mál fái greiðan gang í gegnum þingið. Það er nú orðið svo áliðið, að það er nauðsynlegt, að þetta mat fari fram síðari hl. sumars eða í haust. Því það er nauðsynlegt, að nýja fasteignamatið sé komið í gildi strax eftir næstu áramót. Ég geri ráð fyrir því, að þar sem í frv. er gert ráð fyrir, að nýja matið komi í gildi 1. febrúar næstk., þá þurfi þessi n. að hafa lokið störfum á þessu hausti.

Ég leyfi mér að leggja til, að frv. verði, að umr. lokinni, vísað til fjhn.