03.08.1931
Efri deild: 19. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 920 í B-deild Alþingistíðinda. (854)

125. mál, fasteignamat

Guðmundur Ólafsson:

Þó að það sé reyndar ekki vani minn að leggja orð í belg, þó að sitthvað beri nú á góma hér í d., get ég ekki látið hjá líða að segja nokkur orð út af ummælum hv. 1. landsk., sem hélt því fram, að einskorða ætti þetta yfirmat við jarðamatið eingöngu. Ég get að vísu fallizt á, að rétt sé að láta ekki þessa yfirskoðun ná til kaupstaðanna, því að þar mun matið yfirleitt vera í sæmilegu lagi, en hinsvegar vil ég ekki undanskilja kauptúnin. Hinar einstöku yfirmatsnefndir í kauptúnum og sveittun hringla með matið fram og aftur, og þó að ekki sé undan þessu kvartað, ættu allir að geta séð, hversu nauðsynlegt er að koma á heildarskipun í þessu efni, enda væru þá hæfir menn að þessu verki, en svo er nú yfirleitt ekki, þegar verið er að breyta matinu í skrifstofum sýslumanna, og þess eru jafnvel dæmi, að þar sé gengið svo langt, að menn breyti matinu á sínum eigin eignum, án þess að aðrir komi til. Er ekki unandi við slíkt ástand, og þar sem setja á slíka yfirmatsnefnd á annað borð, virðist sjálfsagt, að starf hennar taki einnig til fasteignamatsins í kauptúnunum. A. m. k. álít ég þess fulla þörf, eftir þeirri reynslu, sem ég hefi fengið í þessum efnum.