17.08.1931
Efri deild: 31. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 926 í B-deild Alþingistíðinda. (897)

133. mál, rekstrarlán fyrir Útvegsbanka Íslands h/f

Frsm. (Magnús Torfason):

Tilgangur þessa frv. er sá, að sjá landinu fyrir útlendum gjaldeyri, og hefir verið tekið það ráð að láta þetta koma þannig fram, að Útvegsbanki Íslands h/f tæki lán með ábyrgð ríkissjóðs. Þetta má líka til sanns vegar færa, þar sem ástæðan til þess að þetta frv. er fram komið er sú, að sérstaklega illa hefir gengið með sölu sjávar- og landbúnaðarafurða. En eins og við vitum, þá eru sjávarafurðirnar mörgum sinnum meira virði en landbúnaðarafurðirnar. Af þessu leiðir aftur það, að sé erfitt um sölu sjávarafurða, þá má einnig búast við, að lítið verði um útlendan gjaldeyri í bili. Reynslan frá síðasta ári staðfestir þetta, þar sem meginið af sjávarafurðum frá árinu 1930 var ekki selt fyrr en á árinu 1931.

Með till. þessari er lögð mikil áherzla á það, að þetta lán verði tekið þegar á þessu ári. Við þm. vitum það líka, að afurðir hafa lækkað mjög í verði hin síðari ár, miklu meira en menn höfðu búizt við, og verður það því til þess að auka mjög á kreppuna. Þess vegna hefir það verið talið hreint og beint óhjákvæmilegt að veita nú þessa heimild, enda þótt stefna þingsins sé sú, að reyna að komast af með þann gjaldeyri, sem við höfum í landinu, en auka ekki útlend lán frekar en orðið er. En eins og ástandið er nú, þá er ekki varlegt og víst tæplega verjandi, að þingið hætti svo störfum, að það veiti ekki neina úrlausn í þessu efni.

Ég þykist ekki þurfa að hafa fleiri framsöguorð í þessu máli. Ég býst við, að hv. þdm. skilji, hver nauðsyn hefir knúð þetta frv. fram.