31.07.1931
Efri deild: 17. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 929 í B-deild Alþingistíðinda. (921)

25. mál, lendingarbætur á Eyrarbakka

Halldór Steinsson:

Það sést ekki í frv. þessu og kom ekki fram í ræðu hv. frsm., hvað mikið þetta verk myndi kosta, en mér er ókunnugt um, hvort nokkrar áætlanir liggja fyrir um það. Mér skildist þó, að ætlunin sé sú, að byggður verði landgarður til að varna sandframburði úr, Ölfusá, og að þessar 80 þús. kr. myndu nægja til þess.

En það, sem ég vildi sérstaklega benda á, er, að í 2. gr. er ríkisstj. veitt ótakmörkuð heimild til að ábyrgjast allt fé, sem hreppurinn þarf til þessa verks. Ég verð að telja slíkar heimildir mjög óvarlegar meðan engin kostnaðaráætlun liggur fyrir. Mér hefði fundizt eðlilegt, að farin væri sú leið, sem venjulega hefir farin verið þegar um slíkar hafnarbætur er að ræða, að framlag ríkissjóðs sé miðað við einhverja ákveðna upphæð og veitt ábyrgð fyrir því, en ekki óákveðið, fyrir öllu því fé, sem ef til vill þarf til verksins.

Þessu vildi ég skjóta til hv. n. og vita, hvort hún myndi ekki fáanleg til að leiðrétta þetta fyrir 3. umr.