31.07.1931
Efri deild: 17. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 930 í B-deild Alþingistíðinda. (923)

25. mál, lendingarbætur á Eyrarbakka

Magnús Torfason:

Ég leyfi mér að þakka hv. n. fyrir skjóta og greiða afgreiðslu þessa máls, enda get ég verið samþykkur þeirri brtt., sem fram hefir komið frá henni. Ég veit nú raunar ekki. hvernig ég á að skilja hana, hvort ég á að skilja hana svo, að sýslusjóður Árn. hafi að áliti hv. n. svo mikið lánstraust erlendis, að auðvelt myndi að fá lán þar og þakka ég þá n. fyrir gott traust á stj. sýslumálanna þar.

Ég þykist vita með vissu, að ef frv. þetta nær fram að ganga, þá muni það flýta fyrir undirbúningi málsins í héraði og létta undir með aðilum, þannig að hægara verði að afla fjárins, sem þarf til þessa stórvirkis. Að því er undirbúning verksins snertir skal ég taka það fram, að áætlað var, að garðurinn myndi kosta 72 þús. kr., en hafnargerðin alls 160 þús. kr. með því líka að dýpka siglingarleiðina og leguna. Í þessu sambandi skal ég taka það fram, að fyrir nokkrum árum var ráðizt í að byggja bryggjuna, en á henni hvílir nú 6000 kr. skuld. Það, sem aðallega þótti athugavert við þessa áætlun eystra, var, að 80 þús. kr. myndi vera helzt til lágt, en við nánari athugun urðu allir sammála um það, að þær sprengingar, sem þyrfti að gera, myndu tæplega eins kostnaðarsamar og haldið var. Til samanburðar höfum við hina svokölluðu Snepilrás á Stokkseyri. Fyrst var áætlað, að verkið myndi kosta 10 þús. kr., en þegar til kom var ekki hægt að nota þetta fé, svo að þessi fjárveiting stóð aftur og aftur í fjárl. Á þessu gekk í 10 ár, en stundum var ekkert hægt að vinna að þessu sökum óhagstæðs tíðarfars, sem varaði máske heil sumur. Auk þessa þarf sérþekkingu til þess að sjá um allar þær miklu sprengingar, og ef að líkum lætur, munu þær taka afarmörg ár. Þótt við höfum ekki áætlun frá hinum ágæta verkfræðingi, sem hefir hönd í bagga með þessu, þá er um þetta að segja, að hann gat þess, að hún gæti verið óviss, en mönnum, sem þarna þekkja til, hefir komið saman um, að þetta myndi duga.

Hvað viðvíkur ummælum hv. þm. Snæf. um það, að ríkisábyrgðin í 2. gr. sé takmarkalaus, þá vil ég taka það fram, að ég hefi alltaf skilið það svo, að fjárveiting væri bundin við þessar 80 þús. kr. og annað kæmi ekki til mála. Þetta virðist mér einnig styðjast við 1. gr. frv., sem er svo hljóðandi: „Til lendingarbóta á Eyrarbakka skal úr ríkissjóði veittur helmingur kostnaðar, eftir áætlun, sem atvinnumálaráðuneytið hefir samþykkt. þegar fé er til þess veitt í fjárlögum, allt að 80000 kr., gegn jafnmiklu tillagi annarsstaðar að“.

Ég geri ráð fyrir, að annar skilningur komi ekki þarna til greina, einkanlega þar sem ég sem flm. málsins hefi tekið það fram, að ég skildi þetta svo.