31.07.1931
Efri deild: 17. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 932 í B-deild Alþingistíðinda. (925)

25. mál, lendingarbætur á Eyrarbakka

Jón Baldvinsson:

Þegar fé er veitt úr ríkissjóði til fyrirtækja eins og hafna, sem koma einstökum mönnum til góða, þannig að land þeirra verður verðmætara, þá ættu þeir að greiða verðhækkunarskatt eða þá að jarðirnar verði eign hins opinbera. Það er ekki rétt að láta ríkissjóðinn hækka jarðir einstakra manna mjög í verði án þess að nokkuð komi á móti. Að vísu mun það svo í þessu tilfelli, að land það, sem hér um ræðir, mun að mestu eign Landsbankans, en ég veit ekki, hvort aðrir aðilar geta komið til greina; um það ætti hv. 2. þm. Árn. að geta gefið upplýsingar fyrir 3. umr.

Annað það, sem ég hefi að athuga við frv. þetta, er niðurlag 8. gr., sem hljóðar svo: „Gjöld þessi má taka lögtaki, og ganga þau fyrir sjóveðum“.

Ég minnist ekki að hafa séð slíkt ákvæði fyrr í hafnarfrv., og ég myndi geta samþ. frv., ef þessi orð féllu niður.

Þá vil ég beina því til hv. flm., hvort hann álíti ekki hentugra, að sýslunefnd Árn. sé ekki falið það vald, sem henni á að veita samkv. 4. gr., því að hún kemur ekki saman nema einu sinni á ári, og því yrði of langt fyrir menn að bíða eftir svörum frá henni viðvíkjandi uppsátri og öðru slíku. Væri ekki hentugra að fela þetta þeirri n., sem talað er um í 5. gr.?

Þetta vona ég, að hv. n. taki til athugunar og hv. flm. geti sætt sig við að fella burt.