29.07.1931
Neðri deild: 15. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í D-deild Alþingistíðinda. (930)

93. mál, starfrækslutími landssímans í kaupstöðum

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Starfrækslutími þeirra stöðva, sem hér ræðir um, þ. e. 1. fl. A. stöðva, er ákveðinn með reglugerð frá 15. nóv. 1917, þar sem svo er ákveðið, að þær skuli vera opnar á virkum dögum frá kl. 8 að morgni til kl. 9 að kveldi, en á sunnu- og helgidögum frá kl. 10 f. h. til kl. 8 að kveldi. Það hefir nú sýnt sig til fullnustu á undanförnum árum, að þessi tími er allskostar ófullnægjandi, a. m. k. að því er snertir fjölmennnstu kaupstaðina. Og í raun og veru er það ekkert undarlegt, þó það þurfi að fara að endurskoða ákvæði í þessu efni, sem sett voru fyrir fjórtán árum, þegar þess er gætt, hve mikil breyt. hefir orðið á öllu framkvæmda- og viðskiptalífi þjóðarinnar á þessum tíma. Viðskiptalífið er orðið fjölbreyttara og hraði þess er orðinn meiri, og það er álit okkar, sem að þessari till. stöndum, að það beri nauðsyn til þess að lengja starfrækslutíma landssímans í kaupstöðum.

Frá þessari reglugerð frá 1917 hefir einnig verið vikið nokkuð í framkvæmd. Akureyri hefir t. d. nætursamband við Reykjavík og greiðir, að því er mig minnir, 1000 kr. til landssímans fyrir þetta samband, sem ekki er ákveðið í reglugerðinni. Ísafjarðarkaupstaður hefir einnig kveldsamband og greiðir væntanlega eitthvað fyrir það.

Í Vestmannaeyjum hefir það komið í ljós fyrir löngu, að það er ákaflega bagalegt, að síminn skuli vera lokaður eftir kl. 9 á hverju kvöldi. Þetta varð til þess, að Björgunarfélagið fékk á sínum tíma símanum haldið opnum til miðnættis á vetrarvertíð og greiddi úr sjóði sínum nokkuð fé til þessa.

En það sýndi sig brátt, að landssíminn hafði einmitt talsverð viðskipti upp úr því að hafa símann opinn á kvöldin. Fólk vandist fljótt á að nota sér einmitt þessi kvöldsamtöl. Einkum átti það við fólk, sem ekki þurfti að ná í opinberar skrifstofur eða verzlanir, en talaði sér til gamans við kunningja sína. Það sóttist eftir þessum kvöldsamtölum.

Nú er það kunnugt, að símagjöld og önnur afnotagjöld landssímans eru alveg nægilega há, a. m. k. þykir þeim það, sem gjalda eiga, enda sýnir afkoma landssímans, að svo er. Okkur till. mönnum þykir því ekki ástæða til þess að leggja á kaupstaðina neinn sérstakan skatt fyrir að fá að hafa símann opinn til miðnættis. Þetta er hugsunin með till. En til þess að undirstrika þetta ennþá betur flytur hv. þm. Ísaf. brtt. á þskj. 119, þess efnis, að þetta beri að skilja á þá leið, að það skuli gert kaupstöðunum að kostnaðarlausu. Síðan till. kom fram hefi ég átt tal við ýmsa þm., þar á meðal hæstv. forsrh., og ber þeim saman um, að víða sé pottur brotinn í þessu efni, t. d. með starfrækslutíma III. fl. stöðva. Það mætti því virðast tími til kominn, að hæstv. stj. léti endurskoða reglugerðina frá 1917 um starfrækslutímann.

En að því er snertir fjölbyggðustu staði landsins, þá er það alveg óviðunandi, að öllum samböndum, bæði innanbæjar og við höfuðstaðinn, sé slitið kl. 9 að kvöldi. Þetta getur meira að segja haft skaðsamleg áhrif á sjálft atvinnulífið.

Ég geri ráð fyrir, að nú sé alstaðar lokað innanbæjar kl. 9 nema þar, sem sérstakur skattur er goldinn fyrir það að hafa opið. Mér kemur það í hug í þessu sambandi, að sumstaðar erlendis er breytilegur taxti á símagjöldum, eftir því á hvaða tíma dags talað er. Og þetta virðist ekki óréttmætt. Um miðjan daginn, þegar viðskipti eru í fullum gangi, kosta símtölin meira. Þegar líður á kvöldið, koma nætursambönd, sem eru mun ódýrari. Þetta er gert til þess, að þeir, sem ekki þurfa að reka brýn erindi við opinberar stofnanir og verzlunarhús, geti notað símann án mikils tilkostnaðar, og verður það til þess að auka honum tekjur. Virðist mér vel þess vert að athuga, hvort ekki væri ástæða til að breyta til í þessa átt einnig hér á landi. Skal ég svo ekki fjölyrða meira um þessa till., en vænti þess, að hv. þdm. skilji, hvílík nauðsyn það er, að þetta mál fái greiðan framgang.