03.08.1931
Efri deild: 19. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 935 í B-deild Alþingistíðinda. (935)

25. mál, lendingarbætur á Eyrarbakka

Jón Baldvinsson:

Það eru tvær ástæður, sem hv. 2. þm. Árn. hefir flutt fram fyrir því, að halda þessum forgangsrétti hafnargjaldanna fyrir sjóveðum í frv. Hið fyrra er það, að héraðið sé svo fátækt, að það megi ekki eiga á hættu neinn tekjumissi. Hið síðara er það, að sýslunni yrði verra til að fá lán, ef ákvæðið yrði fellt burtu.

Um fyrra atriðið er það að segja, að þó fátækt hérað eigi í hlut, þá ætlast hv. þm. þó til að rýra heldur hlut fátækustu mannanna í fátæku héraði. Mér finnst nú, að hér sé farið í öfuga endann.

Ég býst ekki við, að það myndi skipta neinu máli frá né til um lán til fyrirtækisins, hvort ákvæðið stæði í frv. eða ekki. Ég held, að það myndi ekki gera neitt til, þó það væri fellt niður. Nú hefir hv. þm. upplýst, að þar eystra séu menn ráðnir upp á hlut. Nú er notendum lendingarbótanna gert að greiða 6% af brúttóverði aflans fyrir afnotin. M. ö. o., 6 fiskar af hverjum 100, sem á skip koma, fara í þetta gjald, því nú er sennilegt, að það verði tekið af óskiptu, og mundi þá ekkert sjóveð þurfa. En ef ekki væru hlutaskipti, væri það sjálfsagt innheimt á venjulegan hátt. Nú, ef það væri svo ekki innheimt nógu tímanlega, þá gæti það komið niður á sjómönnunum. Ég býst við, ef aflinn er verkaður, að útgerðarmenn hafi alla sölu fiskjarins og meðferð á hendi. Nú er fiskur seldur, og það er ekki búið að taka þetta gjald, en andvirði fiskjarins hefir ekki verið notað til að greiða skipverjum sitt kaup eða sinn hlut, þá mætti ganga að skipinu og selja það fyrir gjaldinu.

Þetta ákvæði er aðeins til að rígbinda innheimtuna ennþá fastara en gert er með lögtaksheimild, og ég sé enga ástæðu til að ætla, að það verði um neitt hirðuleysi að ræða hjá hv. 2. þm. Árn. við innheimtu á þessu gjaldi. Hann á sem sé um þessi mál að fjalla, og hann er þekktur að reglusemi.

Hv. 2. þm. Árn. segir, að það hafi ekki verið í ógáti, að þetta ákvæði var samþ. í Þorlákshafnarlögunum. Ég skal náttúrlega ekki fullyrða neitt um þetta hvað hv. 2. þm. Árn. viðvíkur, en ég kom ekki auga á það þá. Öðrum kann að hafa verið það ljóst, en mér var það ekki.

Sem sagt, ég fæ engan veginn séð, að ástæður hv. þm. geri það æskilegt að halda ennþá þessu ákvæði í frv.

Hv. þm. sagði ennfremur, að þegar bryggjan var byggð þarna fyrir austan, hafi hásetar og útgerðarmenn lagt fé í bryggjuna. Þetta er sjálfsagt alveg rétt. En það er allt annað, hvað menn leggja fram af frjálsum vilja, eða hitt, þegar á að taka af mönnum rétt með lögum. Nú veit ég ekki, hvað stór skip eru þarna fyrir austan. (MT: Þau eru öll undir 12 tonnum). Það falla nú víst engin sjóveð á skip undir 12 tonnum. (MT: Ekki ennþá, en getur komið seinna). Nei, ekki ennþá. Þess vegna er þetta atriði fyrir hv. þm. ekki „praktiskt“; og sé ég þá ekki ástæðu til, að haldið sé í þetta. Það hefir ekkert að segja fyrir lánsstofnanir. Það er þá aðeins það, ef seinna kæmu þarna stærri bátar, að þá mætti ganga að skipunum. En það mundi þýða það, að skipin mætti selja til þess að þau greiði þau gjöld, sem eiga að greiðast af aflanum og sjóveð skipverja þar með ónýtt orðið. Því ef t. d. skipt væri í fjöru, og hver háseti færi burt með sinn hlut og verkaði hann sjálfur, og formaður tæki við þeim hlut, sem lendingarsjóður á að fá, þá væri um engar kröfur á hásetana að ræða.

Það sést nú ekki á frv. og hv. þm. hefir ekki skýrt, hvað þetta ákvæði eigi að þýða, hvort það megi ganga að skipinu og selja það fyrir gjaldinu. En ég býst nú við, að það verði settar nánari reglur um innheimtuna, og þá sett í reglugerðina ákvæði um það, hver skuli innheimta það, hvort t. d. formaður skuli halda til haga bryggjuhlut aflans, og á hvern hátt hann skuli með farinn. Annars væri auðveldast að skipta aflanum í fjöru og láta sjóðinn fá sinn hlut. Það væri náttúrlega langréttast, því þá fengi sjóðurinn sitt, og þá væri engin áhætta fyrir neinn. Og í reglugerð mætti setja ákvæði á þann veg um innheimtuna, að þægilegt væri að framfylgja þeim.

Ég fæ ekki séð, að það geti verið neitt hagsmunamál að halda fast í þetta ákvæði.