03.08.1931
Efri deild: 19. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 937 í B-deild Alþingistíðinda. (936)

25. mál, lendingarbætur á Eyrarbakka

Pétur Magnússon:

Ég verð að játa, að ég skil ekki vel deilu hv. 2. landsk. og 2. þm. Árn. um sjóveðréttarákvæðin. Eftir siglingalögunum er það svo, að skipverjar eiga ekki sjóveðrétt í afla fyrir kaupi sínu, heldur einungis í skipi. Veit ég ekki til þess, að síðan hafi verið sett þau ákvæði, er gefi þeim sjóveðrétt í afla. — Í 8. gr. frv. segir, að í lendingarsjóð skuli árlega heimilt að innheimta allt að 6% af brúttóverði afla hvers báts, er haldið sé út til fiskiveiða á Eyrarbakka. Verð ég að líta svo á, að fyrir björgun ætti auk þess að koma sjóveðréttur í afla. Í 235. gr. siglingalaganna stendur: „Þær kröfur, sem kröfuhafi á sjóveðrétt fyrir eftir þessum kapítula (sjókröfur), eiga forgangsrétt að veðinu næst eftir opinber gjöld, sem á veðinu hvíla, er ganga fyrir öllum skuldum öðrum“. Held ég fyrir mitt leyti, að gjöld þau í lendingarbótasjóð, sem minnzt er á í 12. gr. frv., myndu talin opinber gjöld og myndu þá ganga fyrir öðrum skuldum. Er ekki vanþörf á því, til tryggingar lendingarbótasjóði, að skýr ákvæði séu til þess að taka af allan vafa um það, hvað skuli talin opinber gjöld.