03.08.1931
Efri deild: 19. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 937 í B-deild Alþingistíðinda. (938)

25. mál, lendingarbætur á Eyrarbakka

Magnús Torfason:

Hv. 2. landsk. sagði, að verið væri að ganga á rétt fátækustu mannanna í fátækasta héraðinu. Þetta er ekki rétt, því að skipgengir menn á Eyrarbakka eru áreiðanlega ekki þeir fátækustu. Vil ég jafnframt benda á það, að bryggjan á Eyrarbakka er til orðin fyrir samtök flestra sjómanna þar, bæði um verks- og fjárframlög, og eiga þeir því flestir hlut í bryggjunni. Sami þm. sagði líka, að till. sín væri ekki praktisk fyrir útgerðarmenn og höfnina, en ef hún er ekki praktisk fyrjr höfnina, þá er hún, af undangreindum orsökum, ekki heldur praktisk fyrir sjómenn. (JBald: Misskilningur!). Held ég, að brtt. hv. þm. sé meira gerð fyrir stefnuna en sjómennina. Er það oft, að ýmsir menn hafa átt kröfur í afla, og hefir það gengið treglega, að þær væru greiddar. Getur það ákvæði, að gjöld gangi fyrir sjóveðum, haft þýðingu í þá átt, að kröfurnar verði heldur greiddar, þegar svo stendur á. Verð ég að mæla með því, að það verði ekki tekið út úr þessum lögum.