17.08.1931
Neðri deild: 31. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 940 í B-deild Alþingistíðinda. (950)

25. mál, lendingarbætur á Eyrarbakka

Jörundur Brynjólfsson:

Ég hefði heldur kosið að tala á eftir hv. þm. Vestm, því að hann hefir skrifað undir nál. með fyrirvara, og ég vildi gjarnan vita, hvað fyrirvari hans þýðir, en þar sem hann er ekki viðstaddur, vildi ég segja nokkur orð.

Hv. sjútvn. hefir borið fram brtt. við frv. og vill, að 1. gr. verði orðuð öðruvísi en er í frv. eins og það hefir verið samþ. í Ed. Munurinn er þó ekki mikill, en það virðist vaka fyrir n. með þessu orðalagi, sem á brtt. er, að tryggja þessa hafnargerð betur. Hvernig það megi verða, er mér þó ekki fyllilega ljóst, því að öll þau atriði, sem brtt. getur um, felast í frvgr. sjálfri eins og hún er. Þar er svo kveðið á, að ekki megi byrja á verkinu nema að fengnu samþykki stjórnarráðsins, en því er auðvitað í lófa lagið að heimta þær áætlanir, sem þurfu þykir, til þess að málið geti talizt sæmilega undirbúið. Ennfremur kveður gr. svo á, að ekki megi hefjast handa um þetta verk fyrr en fé er veitt til þess í fjárlögum, og hefir þingið því óskertan íhlutunarrétt sinn til að heimta þær upplýsingar, sem því þykir nauðsyn á, áður en byrjað er á verkinu. Þá er og á það að líta, að sýslusjóður mun krefjast þess, að málið verði sem vendilegast undirbúið, þar sem honum er ætlað að láta svo mikið fé af hendi í þessu skyni. Þó að brtt. n. sé meinlaus, ætla ég því, að hún hafi litla þýðingu, því að allt það, sem í henni felst, felst einnig í sjálfri frvgr. Það er fullkomlega tryggt eftir frv., að ekkert verði gert af stjórnarvaldanna hálfu fyrr en málið hefir verið örugglega undirbúið, og Alþingi hefir óskoraðan rétt til að heimta allar upplýsingar í málinu áður en fé verður veitt í þessu skyni. Brtt. n. verður því aðeins til að hrekja málið milli d. Praktiska þýðingu hefir hún enga. Þó að n. sé þeirrar skoðunar, að málið sé enn ekki nægilega undirbúið, er engin hætta á því, að hafizt verði handa fyrr en það hefir verið rannsakað að fullu og áætlanir liggja fyrir um væntanlegan kostnað af þessu verki, og til þess að knýja fram frekari rannsókn á málinu, má því alveg eins samþykkja frvgr. eins og hún er eins og þessa brtt. n. Annars hefir nú þegar farið fram allýtarleg rannsókn á þessu máli, þó að ég hinsvegar vilji ekki halda því fram, að fullnægjandi sé. — Ég hefði því óskað eftir því, að n. héldi ekki fast við þessa brtt. sína, né heldur hina brtt. um niðurfellingu bráðabirgðaákvæða frv., og vildi ég beina því til n., hvort hún gæti ekki fallizt á að taka þessar till. aftur til 3. umr., svo að mér gæfist kostur á að eiga tal við n. um málið, ef svo gæti farið, að samkomulag gæti orðið um afgreiðslu frv. Ég ætla, að n. hafi fengið ófullkomnar upplýsingar um málið og telji það meira hættuspil en það er í raun og veru, og vilji af þeim ástæðum slá málinu á frest að þessu sinni. Minnist ég í þessu sambandi greinarkorns, sem ég hefi fyrir ekki löngu lesið í einhverju dagblaðanna um þetta mál. Því var haldið fram í þessari grein, að breyt. sú, sem orðið hefir á skipalæginu á Eyrarbakka, stafaði alls ekki af framburði Ölfusár, heldur lægju til hennar aðrar orsakir, og er nokkuð vikið að þeim í greininni. En mér er óhætt að fullyrða, að þessi skoðun er byggð á miklum misskilningi. Straumfall Ölfusár er nú með öðrum hætti en verið hefir áður. Áður fyrr voru eyrar fram með ánni og aðalstraumur hennar rann í suðvesturátt. En í hafróti miklu fyrir nokkrum árum breyttist straumfall árinnar í ósnum, svo að aðaláin fellur ekki lengur suður og vestur með landi, heldur rennur áin nú austur með landinu. Frá því að þessi breyting átti sér stað, hefir sandur hlaðizt í skipalægið, og eru svo mikil brögð að því, að í stað þess að áður var gott dýpi við bryggjuna, er nú svo komið, að vélbátar geta nú aðeins lent við bryggjusporðinn þegar háflæði er. Þeir, sem kunnugastir eru þessum hlutum, telja óhikað, að þessi grynnkun stafi af því, að áin breyttist. Í greinarkorni því, sem ég drap á, er því haldið fram, að sandburðurinn stafi alls ekki frá Ölfusá, heldur komi hann úr lónunum fyrir austan Eyrarbakka, og það er dregið fram til sönnunar, að sandurinn í skipalegunni sé samskonar og sandurinn í þessum lónum. Skal ég ekki bera brigður á, að sandur þessi sé samskonar, en þó að svo sé, þá liggur samt skýringin í augum uppi. Sandurinn, sem er mjög léttur, hefir borizt með norðansjávarfalli, en að hann hefir ekki safnazt þarna fyrir áður, stafar af því, að hann hefir ekki mætt neinni mótspyrnu af hálfu árinnar. En eftir að breytingin varð á falli árinnar og hún fór að renna gagnstætt því, sem áður var, þá mætti sandurinn mótspyrnu, og er því eðlilegt, að hann safnist fyrir við bryggjuna meir en áður. Einnig skal ég geta þess, að samkv. upplýsingum frá manni, sem rannsakað hefir þessa hluti, er nákvæmlega samskonar sandur víða í bökkum Ölfusár og jafnvel á Kaldaðarneseyrum.

Ættu þeir, sem bezt eru kunnugir á þessum slóðum, að vera bezt dómbærir um þessa hluti.

Eyrbekkingum stendur hinn mesti stuggur af sandburðinum. Er hann alveg að eyðileggja vonir þeirra um það, að hægt sé að flytja þungvöru til Eyrarbakka og skipa þar upp. Bæði Eyrbekkingum og öðrum héraðsbúum er það mjög mikið áhugamál, að hægt verði að skipa upp vörum á Eyrarbakka hér eftir sem hingað til, og að gerðar verði skjótar ráðstafnir til þess að koma í veg fyrir frekari eyðileggingu. Lendingin er nógu stopul samt, þótt hún spillist ekki frá því, sem nú er.

Hv. frsm. sjútvn. sagði, að þó að garður þessi yrði byggður, þá gæti hann samt ekki talizt til lendingarbóta. Þetta er að nokkru leyti rétt, en garðurinn er engu að síður mjög nauðsynlegur. Hann kyrrir sjóinn og beinir árstraumnum út til sjávar, og kemur þannig í veg fyrir, að skipalegan fyllist af sandi. Þó að hann bæti ekki lendinguna frá því, sem nú er, en varni aðeins frekari spjöllum, þá verður hann samt sem áður að teljast mikilsverð lendingarbót. Og það er tilgangur þessa frv., að hún fáist.

Þá hygg ég, að ég hafi vikið nægilega að málinu eins og það liggur hér fyrir. Vil ég mega vænta þess, að hv. d. spilli ekki frv. frá því, sem það er. Það eru ekki of margar hafnir fyrir Suðurlandi, þar sem heita má alger hafnleysa alla leið frá Reykjanesi og austur til Berufjarðar, þó að hv. d. geri ekki sitt til þess að eyðileggja þær veiku vonir, sem bundnar eru við Eyrarbakka meðal héraðsbúa eystra. Ég veit, að hv. sjútvn. ber fram brtt. sínar vegna þess, að hún er ekki nógu kunnug öllum staðháttum þarna eystra. Vil ég því vona, að n. taki brtt. aftur til 3. umr.

Þá vil ég að lokum víka örfáum orðum að hv. 2. þm. Reykv. út af ákvæðum 3. gr. frv. Að vísu hefir ekkj ennþá verið samið til fullnustu við alla þá eigendur, sem þarna eiga hlut að máli, en það hefir verið talað við bankastjóra Landsbankans, sem á aðaleignirnar, sem þarna er um að ræða, og ég geri ráð fyrir, að bankinn muni leggja eitthvað af mörkum í þessu skyni. Ætti það að vera trygging fyrir því, að málið sé nægilega undirbúið. Þessar ráðstafanir munu líka verða til þess að gera staðinn byggilegri og hækka eignirnar í verði, svo að gera má örugglega ráð fyrir, þó að ekki sé búið að semja til fulls við þennan aðila, að hann muni ekki setja sig á móti framgangi málsins, heldur þvert á móti vera fús til að greiða götu þess. Annars skal ég jafnframt geta þess, að ákvæði 3. gr. eru mjög lík þeim ákvæðum, sem voru í frv. um lendingarbætur í Þorlákshöfn.

Skal ég svo ekki hafa fleiri orð um frv. að sinni, en vænti þess, að hv. þm. Vestm. láti frá sér heyra um afstöðu sína til málsins.