17.08.1931
Neðri deild: 31. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 946 í B-deild Alþingistíðinda. (956)

25. mál, lendingarbætur á Eyrarbakka

Jörundur Brynjólfsson:

Ég skal ekki vera langorður.

Mér þykir það miklu miður, að hv. sjútvn. skuli ekki geta fallizt á að taka brtt. sína við 1. gr. frv. aftur til 3. umr. Hér eftir á ég ekki annars úrkosta en að óska liðsinnis hv. dm. til þess að fella þessa brtt., því að ég álít, að frv. verði sízt bætt með slíkri breytingu.

Skal ég þá fyrst víkja örlítið að hv. frsm. Hann kvaðst ekki sjá neina þörf til þess að flýta byggingu landgarðsins. Ég hygg, að hv. frsm. hafi þarna yfirsézt. Það er einmitt nauðsynlegt, að byggingu garðsins verði flýtt sem allra mest, því að skipalegan getur eyðilagzt á skömmum tíma, ef ekki er tekið í taumana og sandburðinum bægt frá henni. Auðvitað verður ekki ráðizt í verkið nema því aðeins, að fullkomin rannsókn liggi að baki. Hún hefir líka verið framkvæmd, einmitt af verkfræðingi, sem mikið hefir fengizt við slíkar rannsóknir. Hygg ég, að varla verði þar mikið um bætt.

Hv. þm. hlýtur að vera það ljóst, að það er sitt hvað að leggja fram 20 þús. kr. í einu eða 80 þús. kr. (því að allt á verkið að kosta 160 þús. kr. og á ríkissjóður að greiða helming þess). Það er gert ráð fyrir, að nokkuð megi bæta úr ástandinu með 40 þús. kr., 20 þús. frá hvorum aðila. Með því að veita svo smáar upphæðir í einu verður verkið miklu viðráðanlegra fyrir héraðsbúa. Og það er augljóst mál, að ef hægt er að koma í vel fyrir áframhaldandi spjöll á skipalegunni, þá er mikið unnið. En haldi legan áfram að grynnka, þá myndi reka að því, að fá yrði dýpkunarskip til þess að fjarlægja sandinn, og myndi það kosta ærið fé.

Viðvíkjandi því, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði, þá skal ég játa það, að þó að lík ákvæði og eru í 3. gr. frv. séu algeng í okkar löggjöf, þá brjóta þau í bága við 63. gr. stjskr. Vil ég alls ekki mæla þessu bót, en slík ákvæði eru orðin svo algeng í lögum okkar, að það er eins og hver taki eftir öðrum og enginn veiti þessu athygli. Slík ákvæði voru í l. um lendingarbætur í Þorlákshöfn og víða annarsstaðar. t. d. í vegalögunum, bæði frá 1907 og 1924, og hafa orðið málaferli út af þeim. En ég hygg, að hér komi þetta ekki að sök, því að eigendurnir munu vera manna fúsastir til þess að leggja eitthvað af mörkum til þess að koma í veg fyrir, að frekari spjöll verði á skipalegunni.

Hv. l. þm. S.-M. vildi ekki fallast á að fresta því að láta bera brtt. undir atkv. og heldur því fast fram af n. hálfu. Mér þykir harla undarlegt, að hv. 1. þm. S.- M. skuli þrásinnis og æ ofan í æ gera tilraun til að koma slíkum málum fyrir kattarnef. Um breytinguna á „ákvæði um stundarsakir“ get ég á það fallizt, að það orðalag verði viðhaft, sem hann leggur til, og hygg, að það sé heldur til bóta. Hinsvegar er um bráðabirgðaákvæðið það að segja, að ég hygg, að vel megi því hlíta eins og það er í frv. Ég ætla, að ég þurfi svo ekki að fjölyrða meira um þetta.