17.08.1931
Neðri deild: 31. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 948 í B-deild Alþingistíðinda. (959)

25. mál, lendingarbætur á Eyrarbakka

Frsm. (Guðbrandur Ísberg):

Ég vil leyfa mér fyrir hönd n. að mótmæla því, að hún sé að bregða fæti fyrir þetta frv. Þvert á móti hefir n. lagt til, að frv. verði samþ., svo að segja óbreytt að efni til. Og þó var n. ljóst, að frv. sem þetta er í raun og veru óviðeigandi að samþykkja, því að það er alveg undir samþykkt annara laga síðar meir komið, hvort það nokkurn tíma, þó það verði að lögum, getur orðið annað en nokkurskonar vonarbréf. Því samkv. ákvæðum frv. eins og það var borið fram er það beint skilyrði fyrir greiðslu ríkisstyrksins til lendingarbótanna, að fjárveiting til þeirra liggi fyrir í fjárlögum, sem héðan af gæti væntanlega í fyrsta lagi orðið á næsta vetrarþingi.

Hvað viðvíkur brtt. við 1. gr., þá er hún allveruleg. Í frv. er talað um áætlun, sem atvmrh. á að hafa samþ. Og fyrir vetrarþinginu lá áætlun um byggingu varnargarðs, að upphæð ca. 72 þús. kr., og mun það vera sú eina áætlun, sem getið hefir verið viðvíkjandi hinum fyrirhuguðu lendingarbótum. Gert er þó ráð fyrir, að verkið allt kosti 160 þús. kr., en hvað á að gera fyrir helming þeirrar upphæðar, hefir ekki verið upplýst nánar en það, að einhverjar lendingarbætur á Eyrarbakka skuli gerðar fyrir það fé. N. leggur til, að sett verði inn tryggingarákvæði í 1. gr., þess efnis, að í staðinn fyrir áætlun, samþykkta af ráðh., komi ýtarleg rannsókn sérfræðings og tillögur um tilhögun verksins og kostnaðáráætlun, samþ. af ráðh. og sýslunefnd Árnessýslu.