29.07.1931
Neðri deild: 15. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í D-deild Alþingistíðinda. (968)

93. mál, starfrækslutími landssímans í kaupstöðum

Jón Auðunn Jónsson:

Það er rétt, sem hv. 1. þm. Skagf. drap á, að það er bagalegt fyrir þá, sem við 3. fl. stöðvar búa, að þær skuli ekki vera opnar á opinberum skrifstofutíma. En benda vildi ég á það, að þetta, sem hér er lagt til, léttir til muna fyrir um starfræksluna. Við vitum það, að það eru mörg símtöl, sem Ísfirðingar láta bíða til kvöldsins. Það er víst, að það léttir afgreiðsluna að lengja starfstímann. Ég veit til þess á þessum kvöldtímum, að töluð hafa verið 34 símtöl frá Ísafirði til Reykjavíkur og Akureyrar, svo það er ekkert óálitlegur tekjuauki fyrir símann að hafa opið þennan tíma.

Vafalaust yrði símanum talsverður tekjuauki að því, ef símatími yrði lengdur. Það er þó sérstaklega nauðsynlegt hvað snertir 3. fl. stöðvar. Mætti t. d. hafa þær opnar milli kl. 1–2 á daginn; þá væri hægt að ná frá þeim sambandi við hinar ýmsu opinberu skrifstofur, sem lokaðar eru á þeim tíma, sem 3. fl. stöðvar eru opnar á nú. Ég sé ekki, að það sé nema sanngjarnt, að bæirnir fái þessa aukastarfrækslu þeim að kostnaðarlausu. Mér er kunnugt um, að víða er langt ofhlaðið á ýmsar stöðvar; það er t. d. stundum svo á Ísafirði, að ekki er hægt að ná til Akureyrar eða Reykjavíkur allan daginn, nema þá með hraðsamtölum, en þau útiloka þá vitanlega aðra, sem ekki geta keypt slík samtöl.