29.07.1931
Neðri deild: 15. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 5 í D-deild Alþingistíðinda. (970)

93. mál, starfrækslutími landssímans í kaupstöðum

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Ég vildi aðeins taka það fram, að ræða hv. 1. þm. Skagf. staðfestir það, sem bæði ég og aðrir hafa verið að segja um starfrækslu landssímans. Og ég geri ráð fyrir, að hæstv. stj. sé það ljúft, þar sem nauðsyn er svo brýn, að láta endurskoðun fara fram á löggjöf um starfrækslu stöðva yfirleitt. Það eru þá líka 3. fl. stöðvarnar, sem illa verða úti. Segir sig sjálft, hve óhentugt það er, að þær skuli aðeins vera opnar á þeim tíma, sem flestar opinberar skrifstofur eru lokaðar.

Nú, þegar athygli stjórnarvaldanna hefir verið vakin á þessu, hljóta þau að telja sér skylt að lagfæra þetta. Verði þessi till. samþ., gæti það orðið orsök þess, að einnig yrði farið að endurskoða ákvæðin um 3. fl. stöðvarnar.