01.03.1932
Neðri deild: 17. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1353 í B-deild Alþingistíðinda. (1020)

50. mál, leyfi til loftferða

Frsm. (Sveinn Ólafsson):

Aths. þær, sem fram hafa komið frá hv. þm. Seyðf., eru meira við form frv. en efni. En þrátt fyrir það tel ég þær góðar og gildar og skal geta þess, að sumt af þessu hefir einmitt komið til umr. í n. Hún hefir ekki verið fullkomlega sammála um hvert einstakt atriði, en þau standa öllum hv. þdm. opin til breyt., eins og áður er tekið fram. Fyrirmælin í 3. gr. um eignarnám skal ég kannast við, að eru ekki að öllu leyti eins og ég hefði kosið, og ég sé ekki neina ástæðu til þess, að þau þurfi að vera neitt frábrugðin alm. eignarnámsheimildum. Þó gæti verið óhentugt að fara með eignarnamið eins og títt er annars, að sækja um það til Alþ. hverju sinni. Því að vel gætu framkvæmdir tafizt, ef svo stæði á, að slíkrar heimildar væri þörf að þingi nýafstöðnu, og þyrfti þá að bíða næsta þings. Af þessum ástæðum var ákvæði þetta tekið svona upp í frv. N. hyggur einnig, að ekki komi tilhögun þessi að sök þar sem samþykkis atvmrh. er krafizt hverju sinni, og hann verður að viðurkenna nauðsyn eignarnámsins, ef gilt á að vera.

Um skattaundanþáguna má að sjálfsögðu margt segja. En mér finnst, að hv. þm. Seyðf. muni hafa dálítið misskilið það atriði. Mér fannst hann fullyrða, að bæði ríki og sveitarfél. væru svipt réttmætum tekjum, sem annars myndu á eðlilegan hátt fást af starfsemi þessari. En þetta get ég ekki álitið rétt. Það er a. m. k. gert ráð fyrir því, að fasteignaskattur og fasteignagjöld, sem ýmist bæjar- eða sýslufél. geta með samþykktarvaldi krafið af fasteignaeigendum, verði kræf. Hitt er auðvitað rétt, að ívilnun um skattgreiðslu aðra, þar á meðal um innflutningsgjald á efni til bygginga flughafna eða stöðva, er mikilvæg eftirgjöf. En með því er í raun og veru ekki neinu fórnað, nema lítilli hagnaðarvon af þessu nýja starfi um sinn, en — engum fengnum verðmætum.

Öll ákvæðin um skattaundanþáguna eru álitamál, og þær álögur, sem í móti eiga að koma mjög á reiki. Er eðlilegt, að eitt sýnist þar hverjum, enda ómögulegt að segja fyrir um viðskipti félagsins og flutningamagn hér á landi að svo komnu.

Fresturinn til framkvæmda hefir eftir nokkrar umr. hjá n. orðið til ársins 1936. Það er í rauninni til komið fyrir þá skuld, að fulltrúi fél., sem hér er staddur og auðvitað hefir gefið n. margar upplýsingar viðvíkjandi málinu, heldur því fram, að mjög fljótt megi ekki heimta eða ætlast til, að framkvæmdir geti orðið, þótt hinar allra fyrstu tilraunir gætu komið til mála jafnvel á þessu eða næsta ári. Einnig er það rétt, eins og hv. þm. Seyðf. tók fram að hér eru ekki framkvæmdirnar einungis komnar undir viðskiptum eða samningum við íslenzka ríkið eitt, heldur einnig samningum við nokkur önnur ríki, og því fremur, sem sumir þeir samningar eru enn þá eftir og geta tafizt, virtist n. hæfilegt að miða frestinn við árslok 1936. Hinsvegar myndi enginn hafa á móti því, að framkvæmdir yrðu fyrr á starfi félagsins.