18.04.1932
Neðri deild: 54. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 376 í B-deild Alþingistíðinda. (103)

1. mál, fjárlög 1933

Héðinn Valdimarsson:

Það eru 3 smábreytingatill., sem ég þarf að mæla með, auk þeirra, sem við höfum borið fram saman, af hálfu flokksins, Alþýðuflokksmennirnir, og hv. þm. Seyðf. hefir talað fyrir. — Þetta er fyrir námsmenn, tvær af þeim till., sem ég flyt. Önnur er um að veita Ingólfi Þorsteinssyni 1200 kr. styrk til þess að nema vélaverkfræði við háskóla erlendis. Hann mundi hafa fengið styrk úr menningarsjóði í fyrra, ef ekki hefði verið minna veitt úr þeim sjóði en áður, vegna þverrandi tekna. Hann hefir beztu vottorð frá kennurum sínum. Það eru fáir, ef það eru nokkrir aðrir, sem stunda vélaverkfræði erlendis, en það eru einmitt þeir menn, sem líklegt er, að geti orðið að gagni síðar, landi sínu og þjóð.

Hinn maðurinn, sem ég legg til að veita styrk, er Trausti Einarsson, sem er að ljúka námi í stjörnufræði, stærðfræði og eðlisfræði við háskólann í Gottingen. Hann hefir beztu meðmæli frá kennurum sínum, þar á meðal dr. Ólafi Daníelssyni og dr. Eckmann, prófessor við þýzka háskólann. Þessi efnilegi stúdent hefir stuðzt undanfarin 4 ár við styrkur menningarsjóði, en hann er nú horfinn á enda, og pilturinn á ekki eftir nema 1 ár til að ljúka náminu. Og það er von, að þennan iðna efnismann langi til, að ekki verði allt ónýtt, sem hann hefir kostað upp á sig, en efnahagur hans er svo bágur, að hann getur ekki haldið áfram, nema hann fái styrk, og foreldranna ekki betri. það er leiðinlegt fyrir hann að verða að hætta, þegar svo langt er komið. Það er því allt, sem mælir með þessum lokastyrk.

Ég hefi svo eina till. að auki, ásamt hv. 1. þm. S.- M., um styrk til Stefáns Árnasonar frá Steinsstöðum til ritstarfa. Þessi maður er mjög hneigður fyrir ættfræði og hefir safnað ýmsu um það efni, en ekki getað vegna fátæktar gefið neitt út um það. Ég vil mæla með, að honum verði veittur sá styrkur, sem farið er fram á, en að öðru leyti mun hv. 1. þm. S.-M. mæla með styrkveitingu til þessa manns.

Ég gleymdi till. fyrir Soffiu. Eins og kunnugt er, er frú Soffia Guðlaugsd. einhver bezta leikkona hér á landi, en hefir ekki haft tækifæri til að beita sér á leiksviði nú um nokkurt skeið, vegna þess að hún hefir ekki getað komizt að samningum við Leikfélag Reykjavíkur. En hún óskar að halda áfram við leiklistina, sem hún hefir aður stundað og hv. Alþingi hefir áður viðurkennt með því að veita henni styrk til að fullnuma sig erlendis, þar sem hún lærði margt. það munu flestir hv. þm. hafa séð hana á leiksviði og vita því, hvernig hún rækir sín hlutverk. Hún hefir reynt að koma upp sérstökum leikflokki og tekizt það, og sækir nú um styrk til að taka upp leiksýningar með þessum flokki, og er tilætlunin að halda uppi leiksýningum í Reykjavík og víðar, þannig, að hún færi út um landið með leikflokk sinn og sýndi list sína a. m. k. í helztu kaupstöðunum. En þess vil ég geta, að ef það tækjust samningar milli hennar og Leikfélagsins, um að hún tæki þátt í starfsemi þess, sem ég aðallega vildi óska, þá er svo ætlazt til, að þessi styrkur skuli niður falla. En á annan hátt sé ég ekki, að við getum hjálpað henni og þeim, sem ánægju hafa af list hennar, en annaðhvort með því, að henni verði veittur sérstakur styrkur til leiksýninga, eða þá að hún kæmist í samstarf við Leikfélagið, sem væri það æskilegasta, og mun ekki standa á henni til þeirra samninga, eins og bréf þau sýna, sem legið hafa fyrir fjvn. þessu máli viðkomandi.