17.03.1932
Efri deild: 31. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1365 í B-deild Alþingistíðinda. (1037)

50. mál, leyfi til loftferða

Halldór Steinsson:

Ég skil ekki, hvernig það getur orðið hæstv. ráðh. þyrnir í augum, að leyfistíminn sé styttur eins og n. fer fram á, og hvernig það ætti að geta orðið Þrándur í Götu félagsins. Fulltrúi félagsins, sem hér er staddur, hefir ekki bent á neitt, sem gæfi tilefni til að álíta, að félagið gæti ekki jafnt byrjað á framkvæmdum. Þó að leyfistíminn yrði styttur þetta. Ég get ekki séð, að hér sé um neina tortryggni að ræða, þó að farið sé fram á þessa styttingu. Fyrir n. vakti ekkert annað en að tryggja rétt landsins, því að þegar um mikilsvarðandi sérleyfi er að ræða, þá er það skylda Alþ. að vera á verði fyrir landsins hönd og sjá um, að engin hætta geti af þessu stafað, eða verði landinu á nokkurn hátt til bága. Svo framarlega sem þetta fyrirtæki kemst á laggirnar og synir sig vera landinu til gagns, þá er held ég hægurinn hjá með að framlengja sérleyfi félagsins að 50 árum liðnum. En sé eitthvað athugavert við atvinnureksturinn, þá er gott, að þing og stjórn geti tekið í taumana, áður en allt of langt um líður, og gert sínar varúðarráðstafanir. Ég get þess, að þótt ég skrifaði undir nál. fyrirvaralaust, hefði ég óskaði nokkrum öðrum atriðum dálitið breytt, en þau voru þó ekki svo mikilvæg, að ég vildi gera ágreining út af þeim. T. d. álít ég, að síðasta málsl. 2. gr. frv., sem byrjar á orðunum: „Á stöð þessari“ o. s. frv., hefði alveg mátt sleppa. Ég held, að það sé hreinasti óþarfi að gefa landssímastjóra það vald að leyfa eða banna skeytasendingar um veðurfregnir eða annað viðvíkjandi fluginu. Sömuleiðis þykir mér hundraðstalan af fargjöldunum, 5% af brúttófargjöldum, vera fulllagt ákveðið, og því frekar, sem það er aðeins af flutningsgjaldi héðan; það mætti gjarnan vera einnig af flutningsgjöldum hingað. En ég legg ekki svo mikið upp úr þessu, að ég vildi gera það að ágreiningsatriði í n., en aftur á móti legg ég talsverða áherzlu á það, að leyfistíminn verði styttur.