18.04.1932
Neðri deild: 54. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 378 í B-deild Alþingistíðinda. (104)

1. mál, fjárlög 1933

Ólafur Thors:

ég flyt 3 smábrtt. við frv. að þessu sinni. Fyrir einni mun hv. þm. Seyðf. mæla; við fluttum hana við 2. umr., og þó ég væri fyrsti flm., mælti hann fyrir henni þá, og mun nú einnig gera það, svo að ég sé ekki ástæðu til að tala neitt um hana.

Ég vil þá drepa á smábrtt. undir XIV. á þskj. 418, sem ég hefi flutt með hv. þm. Mýr., um að veita Jóni Blöndal styrk til lokanáms í hagfræði. Þessi ungi maður, sem þar er farið fram á að veita styrk, lauk prófi fyrir 4 árum, með ágætum vitnisburði. Síðan hefir hann notið styrks frá menntamálaráðinu, en getur nú ekki vegna lagafyrirmæla um, hve lengi menn megi njóta þess styrks, fengið hann lengur. Hann á eftir 1 ár þar til hann er fullnuma og hefir tekið próf, og ég sé ekki, að honum séu aðrir vegir færir til að afla sér fjár til að standast þann kostnað en að leita til Alþingis og vita, hvort það vill hlaupa undir bagga.

Þessi ungi maður er heilsulítill; hann hefir haft berkla, og er búinn að liggja eitt ar í berklahæli. Hann hefir því ekki haft aðstöðu til að afla sér fjár á þann hátt, sem margir námsmenn bjarga sér áfram með, að vinna fyrir sér á sumrin eða annan tíma með því að forna náminu. En þrátt fyrir þetta heilsuleysi hefir hann stundað námið af dugnaði, svo að þrátt fyrir það, að hann hefir legið eitt ár af námstímanum rúmfastur, eru allar líkur til, að hann muni taka þetta vandasama próf á talsvert styttri tíma en venja er til. Hann hefir ekki notið neins styrks annars en frá menntamálaráðinu, og þar fyrir utan ekki haft neitt annað en það, sem stjúpmóðir hans, sem vinnur baki brotnu og er þó heilsulaus, hefir getað lagt af mörkum við hann. En nú hafa verið lækkuð laun kennara, eins og annara opinberra starfsmanna, en móðir hans hefir haft kennslu að aðalstarfi, svo að nú er það sund líka lokað fyrir honum, að hún geti miðlað honum nokkru. Það er þannig margt, sem mælir með því, að hv. Alþingi vildi veita þennan lokastyrk, svo að þessi ungi, heilsulausi, gáfaði maður geti lokið námi. Ég vona því, að hv. d. taki nú till. vel og láti sér nægja þá lækkun, sem orðið hefir á styrknum við það, að hann var felldur við 2. umr.

Þá á ég aðra till. undir LI. á sama þskj. um að láta niður falla áskilið framlag Kjósarsýslu og tveggja hreppa í sýslunni á móti ríkissjóðstillaginu til vegar á Kjalarnesi árin 1930 og 1931, svo nefnds Kjósarvegar.

Eins og hv. þdm. vita, var það til skilið í fjárl., að gegn framlagi ríkissjóðs til þessa vegar kæmi framlag sýslunnar og þessara tveggja hreppa. Þessir aðiljar hafa innt af hendi til vegarins á árunum 1926–31 kr. 16901.36, en eftir því, sem vegamalastjóri segir, eiga þeir ógoldið framlag, sem nemur kr. 7282.78. Upprunalega er framlag þetta svo komið til, að sýslubúum var það svo mikill hagur, að byrjað væri á þessum vegi, að þeir vildu vinna það til, að gangast undir þessar kvaðir, til þess að fá hann sem fyrst. En á síðari árum hefir þetta breyzt svo, að vegurinn er nú ekki eingöngu til þeirra þarfa, heldur er hann orðinn alger þjóðvegur, eftir að ferðir kringum Hvalfjörð hafa færzt í aukana. Og hæstv. stj. hefir sýnt, að hún hefir þennan skilning á þessu með því að fella niður þetta skilyrði fyrir fjárveiting til vegarins í fjárlfrv. fyrir árið 1932, og hv. Alþingi gekk inn á þann skilning. það er því ákaflega sanngjarnt, að þessi till. verði samþ. Úr því að það er viðurkennt, að það sé ekki réttlátt, að framlag komi frá þessum aðiljum til vegarins lengur, þá er það sannleikur, sem ekki verður hrakinn, að það hefir heldur ekki áður verið sanngjarnt. Ég hefi orðað þetta, bæði við hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh., og þeir telja báðir sanngjarnt, að framlagið falli niður. Einkum hefi ég oftar en einu sinni orðað þetta við hæstv. forsrh., af því að það heyrir nú undir hann sem atvmrh. Ég vænti því, að einnig þessari till. muni hv. d. taka vel og gjalda henni jákvæði. Og þar sem meðmæli tveggja ráðh. styðja till., þykist ég vita, að hún eigi tryggt fylgi í d.