18.04.1932
Neðri deild: 54. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 384 í B-deild Alþingistíðinda. (106)

1. mál, fjárlög 1933

Sveinbjörn Högnason:

Við 2. umr. fjárl. flutti ég og hv. samþm. minn brtt., sem fer fram á 10 þús. kr. til vegarins upp í Landsveit, og verði það tekið af upphæð þeirri, sem í fjárl. er áætluð til vegarins yfir Holtavörðuheiði. En vegna þess að margir hv. þm. hafa farið fram á, að lækkað yrði það fé, sem ætlað er til vegarins yfir Holtavörðuheiði, þá hefir fjvn. farið fram á það, að við tækjum till. aftur til 3. umr., svo að hægt væri að athuga hana nánar. Nú hefir fjvn. ekki séð fært að taka þetta til greina hjá okkur, og þess vegna flytjum við nú aftur brtt., en nú í félagi með hv. 1. þm. S.-M., um að lækka fé til Holtavörðuheiði, en veita smærri upphæðir til vega annarsstaðar í sveitum landsins. Við viljum sjá, hversu margir og hverjir hv. þm. það eru, sem vilja verja 1/3 hluta af öllu vegarfé þessa árs, sem ætlað er til nýbyggingu vega, til vegar yfir eyðiheiði, sem ekki lettir beinlínis undir framleiðslu og afkomuskilyrði manna, en neita jafnframt að láta smáupphæðir ganga þangað, sem gæti komið heilum sveitum að miklum notum og létt stórkostlega undir lífsskilyrði hjá þeim. Ég held, að þeir hv. þm., sem vilja láta 1/3 hl. vegarfjárins ganga eins og til er ætlazt eftir till. fjvn., sem komnar eru frá vegamálastjóra, skilji ekki hvaða tímar það eru, sem við höfum við að stríða, ef ekki á fyrst og fremst að taka tillit til þess, hvar þörfin er mest aðkallandi. Ég get skilið aðstöðu vegamálastjóra, því að auðvitað er það hans till, sem fjvn. ber fram. Hann lítur auðvitað á það, sem verða á í framtíðinni, lítur á vegakerfi landsins í heild sinni. En hann er ekki eins kunnugur og einstakir þm., hvar þörfin er mest í svipinn, og hvar smáupphæðir geta komið að fullu gagni. Það er því einmitt þm. að benda á það. Ég held þess vegna, að það sé fullkomlega sanngjarnt, þegar við förum fram á það, að 3/5 þessa fjár til Holtavörðuheiðarvegarins verði teknir og varið til þess að bæta úr brýnustu þörfum, þar sem hægt er með smáupphæðum, eins og við förum fram á í brtt. á þskj. 418,VII. — Ég er ennfremur riðinn við brtt. á sama þskj. undir h, með 1. þm. Árn. og hv. samþm. mínum (JÓl), þar sem farið er fram á 20 þús. kr. sem vöruflutningastyrk til hafnleysishéraðanna á Suðurlandi, ef frv., sem nú liggur fyrir um bifreiðaskatt og benzínskatt, verður afgreitt sem lög frá þinginu. Við umr. um þetta frv. héldum við því fram, að nokkur hl. þessa skatts ætti í raun og veru að koma sem styrkur til þessara héraða aftur, því að hann myndi leggjast þyngst á þau héruð, sem einungis verða að nota bílaflutninga. En þá var það einmitt vegna tilmæla hæstv. forsrh. og annara hv. þm., að við tókum þær brtt. aftur við það frv., þar sem talið var réttara, að þessi styrkur væri tekinn beint upp í fjárl., en ekki tekinn af skattinum sjálfum. Þess vegna er það, að við flytjum nú þessa till., svo framarlega sem þetta skattafrv. verður afgreitt frá þessu þingi.

Þá er ég meðflm. að till. á sama þskj. undir XV með samþm. mínum (JÓl) um styrk til Jóns Gissurarsonar til framhaldsnáms í Þýzkalandi, 800 kr. Við 2. umr. gerði Ég grein fyrir þessari styrkbeiðni, sem þá var 1000 kr., en var felld með litlum atkvæðamun. Ég ber því fram nú 800 kr., og þar sem svo lítill atkvæðamunur var um þessar 1000 kr. við 2. umr. fjárl., þá tel ég víst, að ekki þurfi að fara mörgum orðum aftur um þessa brtt. okkar, þar sem hún er færð niður um 200 kr. Ég skal taka það fram um þennan styrk og alla persónulega styrki, sem hér eru komnir fram, að það er í rauninni ákaflega erfitt fyrir hv. þm. að gera sér ljóst í hverju tilfelli, hvar þörfin er mest. Æskilegast væri, að þingið hefði aðeins eina upphæð, sem varið væri svo eftir umsóknum, án þess að þingið greiddi atkv. um það. En ef persónulegir styrkir eiga nokkurn rétt á sér, þá vil ég halda því fram, að það séu helzt styrkir til manna, sem stundað hafa nám erlendis í allmörk ar og eiga ekki nema lítið eftir af námi sínu, en myndu verða að hætta, ef þeim væri ekki veitt hjálp.

Þá kem ég loks að brtt. á þskj. 440,II, sem við þm. Rang. flytjum. Þessi brtt. fer í þá átt að veita 7 þús. kr., til vara 5 þús. kr., til að ljúka við uppdrætti og áætlanir af mælingum heim, sem framkvæmdar hafa verið á vatnasvæði Þverár og Markarfljóts.

Þessar mælingar hafa verið framkvæmdar á árunum 1929 –31, og mælingunum sjálfum er nú lokið. Tilgangurinn með þessum mælingum er sá að áætla eftir þeim, hvernig megi verjast ágangi vatnanna, hvernig framræslu verði fyrirkomið á þessum svæðum og hvar eigi að leggja í brýr og vegi, sem sagt að finna undirstöðu undir hin miklu mannvirki, sem þarna eru nauðsynleg, bæði til að koma samgöngunum í öruggara horf og til þess að verjast ágangi vatnanna betur en verið hefir undanfarin ár. Eins og ég hefi tekið fram, þá er nú þessum mælingum lokið. En eftir er að vinna úr þeim, gera áætlanir og teikningar. Að vísu hefir verið unnið að þessu af Búnaðarfélagi Íslands í von um, að framhald fjárveitinga þingsins komi til síðar. En til þess að geta lokið við það að fullu, mundi þurfa 10 þús. kr., en við höfum þó ekki farið fram á meira en 7 þús. kr. í þessu skyni og til vara aðeins 5 þús. kr. En þess ber að gæta í þessu sambandi, að þegar byrjað verður á framkvæmdum á vatnasvæðinu og það er nú sem betur fer brátt að því komið, því að byrjað verður á brúnum að vori komanda, þá er nauðsynlegt að þessar áætlanir liggi fyrir til afnota. Það verður því að telja það hina mestu nauðsyn, að fé verði veitt til þessa nú, svo að hægt sé að byrja á framkvæmdum.