22.03.1932
Efri deild: 35. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1372 í B-deild Alþingistíðinda. (1060)

39. mál, þingsköp Alþingis

Frsm. meiri hl. (Pétur Magnússon):

Í frv. þessu, sem hér liggur fyrir, er lagt til, að sú breyt. verði gerð á þingsköpum Alþingis, að fastanefndum þingsins verði fjölgað um eina, og á hún að hljóta nafnið „iðnaðarnefnd“. Eins og nafnið bendir til, er henni ætlað að fjalla um þau mál, er snerta iðju og iðnað og afstöðu iðnaðarmanna í landinu. Áður hefir það verið venja, að allshn. hefði slík mál til meðferðar, en hinsvegar er ekki unnt að velja menn í allshn. með tilliti til þessara mála, því að eins og kunnugt er, þá er margvíslegum málaflokkum vísað til allshn., sem eru óskyld þessum.

Þetta frv. var flutt í Nd. af hv. 4. þm. Reykv., eftir því sem hann sagði samkv. óskum fjölda iðnaðarmanna og iðnaðarráðsins í Reykjavík. Iðnaðurinn er orðinn það stór þáttur í atvinnulífi þjóðarinnar, að það sýnist ekki ósanngjarnt, þó að Alþingi sýni þá útlátalausu tillitssemi að verða við þeirri málaleitan, sem felst í þessu frv. Það mundi margur mæla, að þetta væri þó það minnsta, sem þingið gæti gert fyrir iðnaðinn.

þetta frv. fór ágreiningslaust í gegnum Nd., og held ég, að mér sé óhætt að segja, að þar hafi enginn greitt atkv. á móti því. En allshn. þessarar deildar, sem hafði málið til meðferðar, hefir ekki orðið sammála um það. Ég og hv. 3. landsk. leggjum til, að frv. verði samþ., en hv. 2. þm. Eyf. er því mótfallinn, og mun hann gera grein fyrir afstöðu sinni.