22.03.1932
Efri deild: 35. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1375 í B-deild Alþingistíðinda. (1064)

39. mál, þingsköp Alþingis

Jakob:

Möller: Ég get ekki verið sammála hv. 2. þm. Eyf. um, að sú iðnaðarnefnd, sem hér er gert ráð fyrir með þessu frv. verði þýðingarlaus. Ég álít, að það hafi talsverða þýðingu fyrir iðnaðarmenn að geta snúið sér með sín mál til ákveðinnar n. í þinginu, mál, sem þeir þurfa að fá framgengt. Nú er fyrirkomulagið í þessum efnum þannig, að iðnaðarmenn hafa fullkominn félagsskap um sín mál, og hafa þeir á þann hátt skilyrði til þess að skipuleggja þau og bera fram, en þá vantar á Alþingi aðila til þess að veita viðtöku þeirra erindum, Verða iðnaðarmenn því að ganga frá einum til annars og róa í hinn og þennan af þingmönnum, í stað þess, að ef skipuð væri sérstök iðnaðarnefnd þá gætu þeir snúið sér beint til hennar. Þess vegna er ég ekki í vafa um, að slík n. gæti komið að verulegu gagni.

Ég vil í þessu sambandi vekja athygli á því, að það eru önnur mál á Alþingi, sem ekki er síður ástæða til, að sérstök n. fjalli um en það eru verzlunarmálin. Ég álít að verzlunarstéttin eigi fullan rétt á því, enda er það nú svo, að aðalatvinnuvegir Íslendinga eru landbúnaður, sjávarútvegur, iðnaður og verzlun, og væri eðlilegt, að hver þeirra hefði sérstaka n. í þinginu. En þó gæti komið til mála og farið vel á því, að skipuð yrði ein sameiginleg fastanefnd fyrir iðnaðar- og verzlunarmál fyrst um sinn. Iðnaðarnefnd hefði ef til vill fremur lítið verkefni, en ef verzlunarmálum væri líka vísað til hennar þá hefði hún meira að starfa, en jafnframt mundi því létt af öðrum nefndum. Verzlunarmálum hefir hingað til verið vísað til fjhn., en hinsvegar er margt skylt með iðnaðar- og verzlunarmálum, og gætu þau þess vegna verið í sömu n. Ég geri ráð fyrir, að þetta frv. verði samþ. til 3. umr., og vil ég því beina því til hv. allshn. að athuga til 3. umr., hvort hún geti. ekki fallizt á að víkka starfssvið iðnaðannefndar þannig, að hún fái verzlunarmál til meðferðar.