24.02.1932
Neðri deild: 9. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1378 í B-deild Alþingistíðinda. (1071)

33. mál, ljósmæðra- og hjúkrunarkvennaskóli Íslands

Flm. (Vilmundur Jónsson):

Hæstv. fjmrh. hefir ekki áttað sig á því, að hér er um meira að ræða en ljósmæðrafræðsluna eina. Hér eiga tveir skólar hlut að máli: ljósmæðraskóli og hjúkrunarkvennaskóli, en áður hafa hjúkrunarnemar orðið að sækja fræðslu sína út úr landinu. Auk þess fer hæstv. ráðh. vilt um kostnaðinn undanfarið af ljósmæðrakennslunni. Árið 1929 nam hann nærri 12 þús. kr., og að færa þann kostnað nú niður í 4 þús. kr. fyrir tvo skóla í stað eins áður, getur ekki náð neinni átt. Kostnaðurinn hlýtur vitanlega að verða meiri eftir því sem fræðslan verður víðtækari og fullkomnari. Að vísu má segja, að kostnað þennan sé auðvelt að færa til og láta landsspítalann greiða hann, en það er óviðeigandi og villandi.