05.03.1932
Neðri deild: 21. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1384 í B-deild Alþingistíðinda. (1082)

33. mál, ljósmæðra- og hjúkrunarkvennaskóli Íslands

Frsm. (Sveinbjörn Högnason):

Ég er hv. þm. Borgf. algerlega sammála um það, að menn, sem eru í bezt launuðu embættum landsins, þiggi ekki sérstök laun fyrir hvert aukastarf, sem þeir vinna. Og þetta tók ég skýrt fram í framsöguræðu minni. Það var því ekki rétt ályktað hjá hv. þm., að með því að samþ. þetta eins og það nú liggur fyrir, væri viðurkenning Alþ. gefin fyrir því, að þannig ætti þessu að vera fyrir komið. Það, sem okkur gekk til, var það, að okkur þótti Alþ. bresta heimild til þess að leggja þessa kvöð á þá menn, sem nú sitja í embættunum. En hinsvegar skal ég taka undir það með hv. þm., að ég álit æskilegt, að stj. leitist við að ná slíkum samningum við þessa menn, að þeir geri þetta án sérstakrar greiðslu. En eins og landlæknirinn, hv. þm. Ísaf., tók fram, hygg ég, að erfitt sé að semja við þessa menn, þar sem ekki er nema úr hópi fárra manna að velja, sem hafa þessa sérþekkingu. Þess vegna mun ekki vera gott að setja þeim mjög stólinn fyrir dyrnar, og því réttast að semja við þá í hverju einstöku tilfelli.

Hvað því viðvíkur, sem hv. þm. V.-Sk. sagði um lengingu námstíma yfirsetukvenna, skal ég, eins og hv. þm. Borgf., viðurkenna það, að ég er ekki dómbær um það efni. En hinsvegar vil ég benda á það, að þessi námstími ætti ekki að verða þeim til neinna örðugleika fram yfir það, sem áður hefir verið, þar sem laun þeirra hafa ekki alls fyrir löngu verið hækkuð til muna, og með það fyrir augum, að starfið er ábyrgðarmikið, og því einnig æskilegt, að til undirbúningsins sé vandað sem bezt. Annars finnst mér, að í þessu atriði verði mest að byggja á dómi landlæknis og heilbrigðisstjórnar.