08.03.1932
Neðri deild: 23. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1386 í B-deild Alþingistíðinda. (1087)

33. mál, ljósmæðra- og hjúkrunarkvennaskóli Íslands

Vilmundur Jónsson:

Um brtt. hv. þm. V.-Sk. er það að segja, að hún er ekki beinlínis skaðleg, en með öllu óþörf, því aldrei myndi verða sótt um slíka undanþágu, og hún því síður gefin. Nú er kennslunni hagað þannig, að náminu er skipt í tvennt, bóklegt og verklegt nam. Bóklega námið fer fyrst fram, en hið verklega jafnframt og þó aðallega síðar. Það myndi því engin stúlka fara fram á að sleppa meiri hluta verklega námsins, enda myndi engin sveit vera bættari með því að fá slíkar ljósmæður.

Þó að till. þessi sé þannig ekki beinlínis skaðleg, þá yrði hún samt óprýði á lögunum, ef hún næði samþykki. Vil ég því mælast til þess við hv. dm., að þeir felli hana.

Þá vil ég víkja nokkrum orðum að brtt. hv. þm. Borgf. á þskj. 119. Látum svo vera, að hægt sé að setja lagaákvæði um það, að yfirlæknarnir skuli hafa kennslu þessa á hendi fyrir ekki neitt. En ég vil vekja sérstaka athygli á því, hve misjafnlega kennslan kemur niður á þá. Einn þeirra annast t. d. helming kennslunnar, kennir 4 stundir á viku og hefir fyrir miklum störfum að gegna sem forstöðumaður ljósmæðradeildarinnar, og einkum sem forstöðumaður lækningadeildarinnar á landsspítalanum.

Ég vil líka spyrja: Hvernig á að fara að, ef yfirlæknarnir neita þessu og vilja ekki taka við kennslunni nema fyrir aukaborgun? Á þá að reka þá ? Það er hægt að svipta þá yfirlæknisembættunum, en það er ekki hægt að taka af þeim kennsluna við háskólann. En vegna læknakennslunnar í landinu er engin leið að sundurskilja háskólakennsluna og yfirlæknisstörfin við landsspítalann. Annars taldi þm. heppilegt um veitingu þessara prófessorsembætta, að þeim fylgdu yfirlæknisstöðurnar við landsspítalann, og þyrfti að breyta háskólalogunum í þá átt.

Ég vil vekja athygli hv. dm. á því, að samþykkt þessarar brtt. getur eins og nú standa sakir, leitt til hálfgerðra vandræða; ég vil því leggja til, að hún verði felld.