08.03.1932
Neðri deild: 23. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1387 í B-deild Alþingistíðinda. (1088)

33. mál, ljósmæðra- og hjúkrunarkvennaskóli Íslands

Pétur Ottesen:

Ég get ekki annað séð en að það sé hugarburður einn, að nein sérstök vandræði geti stafað af því, þó að brtt. mín verði samþ. Hv. þm. Ísaf. var að tala um, að kennsla þessi kæmi mjög misjafnt niður á kennarana, en ég fæ ekki séð, að svo þurfi að vera, því að til þess að kenna ljósmæðrum fræði sín, þarf ekki nema algenga læknisfræðimenntun, og því til sönnunar nægir að benda á, að undanfarið hefir landlæknir haft kennslu þessa á hendi, maður, sem ekki hefir haft nema almennt læknapróf.

Þá er hitt atriðið, hvað gera eigi, ef yfirlæknarnir vilja ekki taka að sér þessa kennslu nema fyrir aukaborgun. Ég geri alls ekki ráð fyrir, að til þess komi, því að ég býst ekki við, að þeir fari að skjóta sér undan þessu, þegar þeir sjá, að það er vilji Alþingis, að þessum málum sé skipað á þennan veg. Mér þykir meira að segja leiðinlegt, að forvígismaður læknastéttarinnar skuli láta sér detta í hug, að þeir muni skjóta sér undan þessu. Þegar þess er líka ennfremur gætt, að mennirnir eru ráðnir að landsspítalanum, ráðnir til þess að inna af hendi þau störf, er þar koma fyrir, og það var þegar gert ráð fyrir, að kennsla þessi færi þar fram, þá er beinlínis hægt að telja hana eitt af þeim verkum, sem þeir hafa skuldbundið sig til að vinna. Getur þetta því alls ekki valdið árekstri. sé það því vilji d., að framtíðarskipun ljósmæðrakennslunnar skuli vera á þann veg, sem brtt. mín fer fram á, þá er sjálfsagt að samþ. hana nú, svo ákvæðið sé komið inn í frv.

Ég skal ekki fara að blanda mér inn í deilur hv. þm. V.- Sk. og hv. þm. Ísaf., en eins og ég tók fram við 2. umr. málsins, þá hefði ég helzt kosið, að námstíminn væri óbreyttur frá því, sem nú er, en þar sem fyrirkomulag skólans er miðað við árskennslu, þá má vel vera, að þetta reki sig eitthvað a. Þó finnst mér, að haga mætti náminu á þann veg, að veita mætti undanþágur eins og brtt. fer fram á, og til þess að tryggja það, að landlæknir gæfi meðmæli með undanþágunni, er ekki annað en breyta fyrsta orðinu í brtt. á þskj. 115 í „skylt“ fyrir „heimilt“. Þessu vil ég skjóta til hv. þm. V.-Sk. Er það öruggara til þess að héruðin geti komið fram óskum sínum. Verður landlæknir þá að beygja sig fyrir óskum héraðanna og hlutaðeigandi héraðslækna.