08.03.1932
Neðri deild: 23. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1395 í B-deild Alþingistíðinda. (1098)

33. mál, ljósmæðra- og hjúkrunarkvennaskóli Íslands

Bergur Jónsson:

Vegna þess að hv. frsm. allshn. er veikur, vil ég gera nokkra grein fyrir afstöðu okkar nm. til þessa máls. Ég geri ráð fyrir, að allir nm. hafi sömu skoðun á þessu máli og við 2. umr. og muni samkv. því ekki samþ. brtt. þær, sem fram hafa komið.

Um brtt. hv. þm. Borgf. á þskj. 119 er þess að geta, að störf þeirra manna, sem hér eiga hlut að máli, eru samningsbundin, og því er ekki hægt að skylda þá til að vinna önnur störf en þau, er samningarnir þá yfir, án þóknunar. Brtt. er samkv. því tilraun til þess að fá löggjafarvaldið til þess að ganga á gerða samninga, og mundi sennilega kallað stjórnarskrárbrot, ef borið væri fram af sumum öðrum.

Hv. þm. N.-Ísf. kallaði þetta „prófstein“ á sparnaðarlöngun þdm., og hv. þm. Borgf. þáði vitanlega þessa „röksemd“ feginsamlega. En hér er ekki um það að ræða. Allshn. hefir lýst því yfir, að æskilegt væri, að unnt væri að vinna þessi störf án aukaborgunar, en hún vill virða gerða samninga og taldi því ekki fært, að Alþingi samþ. ákvæði, sem kæmu beinlínis í bága við þá.

Þá er brtt. frá hv. þm. V.-Sk., Um hana vil ég segja það, að ég álit, að enginn sé dómbær um það, hve lengi þetta nam þarf að standa yfir nema yfirstjórn ljósmæðraskólans og aðrir fagmenn í þeirri grein. Þeir byggja það vafalaust á undangenginni reynslu, að námstíminn þurfi að vera þetta langur, því enga ástæðu hafa þeir til þess að óska eftir því, að hann sé lengri en nauðsyn krefur. Ég get því ekki séð, að það sé sæmilegt af Alþingi, sem að mestu leyti er skipað leikmönnum á þessu sviði, að taka fram fyrir hendur sérfræðinganna í þessu efni.