15.04.1932
Neðri deild: 52. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1359 í C-deild Alþingistíðinda. (11123)

242. mál, síldarbræðsla á Raufarhöfn

Flm. (Björn Kristjánsson):

Ég hefi fyrst og fremst borið frv. þetta fram vegna kjósenda minna á Raufarhöfn og í heim tilgangi að skapa möguleika fyrir atvinnu þar á staðnum. Eins og sakir standa eru engar horfur á, að nokkur atvinna verði þar á þessu ári, nema þá ef til vill lítilsháttar fiskveiðar á handfæri, og má því segja, að nær allar bjargir séu bannaðar hvað atvinnu snertir. Undanfarin ár hafa þorpsbúar lifað af atvinnu við síldarbræðsluverksmiðju þá, sem hér er farið fram á að fá heimild fyrir, að ríkið starfræki, og bátaútgerð, sem fellur niður vegna stórtapa undanfarinna ára og beituleysis, ef starfsemi verksmiðjunnar hættir. En þrátt fyrir hagsmuni kjósenda minna mundi ég ekki hafa flutt frv., ef ég væri ekki jafnframt sannfærður um gagnsemi verksmiðjurekstrarins fyrir síldarútveginn á Norðurlandi. Reynslan hefir orðið sú undanfarin ár, að þó saltað hafi verið eins mikið af síld og hægt hefir verið, þá hefir samt mikið á skort, að síldarbræðsluverksmiðjurnar gætu haft undan að taka á móti og vinna úr því, sem að hefir borizt. Hafa veiðiskipin því oft orðið að liggja fleiri daga inni í höfn án þess að losna við afla sinn, og stundum orðið að fleygja honum í sjóinn. Hafa verksmiðjurnar þó verið 5 á Norðurlandi, þrjár í Siglufirði, ein í Eyjafirði og þessi á Raufarhöfn. Ef síldveiðarnar verða reknar í sumar komandi eins og að undanförnu, þá er áreiðanlegt, að það ástand helzt, að ekki verður hægt að koma allri veiðinni í verð. Útgerðarkostnaðurinn verður sennilega líkur; verður það því tap fyrir útveginn, sem framleiðslumagnið minnkar við það, að verksmiðja þessi leggst niður, en á því eru helzt horfur eins og nú standa sakir. Eigandi verksmiðju þessarar er Norðmaður, en efnahag hans mun nú svo komið, að hann telur sig ekki geta haldið áfram verksmiðjurekstrinum. Ég get nú búizt við, að ýmsir hv. þm. líti svo á, að það geri hvorki til né frá, hvort verksmiðja þessi starfi eða ekki, því að hún sé svo lítil. En þetta er ekki svo. Eftir þeim upplýsingum, sem ég hefi nýlega fengið, þá getur hún unnið úr 600 málum á sólarhring, en það mun vera nálægt 1/3 af því, sem síldarverksmiðja ríkisins á Siglufirði getur unnið á sama tíma. Starfi nú verksmiðjan allan síldveiðitímann, þá lætur nærri, að hún vinni úr 40 þús. málum þann tíma. Þó ekki sé nú áætlað hærra verð fyrir hvert mál en ríkisverksmiðjan greiddi síðastl. sumar, þá verður það nær 140 þús. kr., sem hún kaupir fyrir. Við þessar atvinnutekjur mætti svo bæta atvinnu fólksins á Raufarhöfn, sem ég treysti mér ekki til að áætla, ennfremur flutningsgjöldum fyrir síldarafurðirnar, sem að sjálfsögðu lentu hjá Eimskipafélagi Íslands. Mun því ekki ógætilega áætlað, þó að talið sé, að öll starfræksla verksmiðjunnar þýddi um 250 þús. kr. tekjur fyrir landsfólkið.

Þá vil ég geta þess, að verkamenn á þessum stað eru ekki góðu vanir hvað kaup snertir. Þeir eru vanir að vinna fyrir lægri launum en almennt gerist, því ég veit ekki til, að Norðmaðurinn hafi borgað nema 80–85 aura pr. klukkustund síðustu árin, og það aðeins þann tíma, sem unnið var í verksmiðjunni, því að hann hafði enga fasta menn, nema vélstjóra og aðra kunnáttumenn. Þarf því ekki að fælast það, að þarna verði verið með sérstakar kaupskrúfur.

Með þessu hefi ég viljað benda á, að hér er um að ræða spursmál, sem nokkurs er vert fyrir atvinnulíf þjóðarinnar. Vænti ég því, að þeir hv. þm., sem mest tala um, að auka þurfi atvinnu í landinu, hvort sem það er frekar með aukinni kartöflurækt eða öðru, sýni líka skilning á þessu máli, því að það miðar að aukinni atvinnu og aukinni framleiðslu.

Í frv. þessu er ekki farið fram á það, að ríkissjóður reki skilyrðislaust síldarbræðslustöð á þessum stað, heldur er aðeins farið fram á heimild til þess, að undangenginni rannsókn, og sú rannsókn á alls ekki að þurfa að vera dýr, því að svo stendur á, að völ er á mjög vel hæfum manni, bæði að því er snertir vélaþekkingu og verksmiðjurekstur, til þess að athuga þetta, og á ég þar við framkvæmdarstjóra síldarbræðslustöðvarinnar á Siglufirði. Hann er í þjónustu ríkisins hvort sem er, og þarf rannsóknin því ekki að kosta annað en ferðakostnað hans norður.

Það má að sjálfsögðu segja, að ekki sé hægt að vita fyrirfram með vissu um rekstrarafkomu svona fyrirtækis, en kostnaðinn ætla ég þó að sjá megi fyrir með nokkurri vissu, eftir að rannsókn hefir farið fram á vélum, húsum og allri aðstöðu.

Vitanlega byggist afkoma slíks fyrirtækis engu síður á verði framleiðslunnar, en eins og kunnugt er, hefir markaðsverð þeirra vörutegunda, sem hér er um að ræða, lækkað mjög hin síðustu ár. Hygg ég, að það sé skoðun flestra þeirra manna, sem kunnugir eru þessum málum, að það verðfall sé nú komið í botn og lítil ástæða sé til að óttast, að verðið lækki úr þessu. Ætti þá að vera miklu minni hætta á, að tekjuáætlun fyrirtækisins þyrfti að bregðast. En ef verðið væri nú hátt, væri sú hætta miklu meiri.

Ég hefi lauslega minnzt á þetta mál við hæstv. forsrh., og hefir hann tekið því fremur þunglega. Það út af fyrir sig, að ráðherrann er málinu fremur andvígur, ætti að vera trygging fyrir því, að ekki yrði lagt út í fyrirtækið nema það sé fyllilega tryggt, og ekki í það ráðizt nema útlitið sé fremur gott.

Á síðasta þingi og einnig á þessu þingi hafa komið fram beiðnir frá nokkrum illa stöddum hreppsfélögum um hallærislán, og ég hygg, að þingið geti ekki komizt hjá því að líta á vandræði þeirra, annaðhvort með því að veita þeim hallærislán, eða þá með því að skapa fólkinu atvinnumöguleika, svo það geti bjargað sér sjálft. Síðari leiðin mun af flestum verða talin hyggilegri, og það er einmitt hún, sem ég er að fara fram á, að farin verði hér til viðreisnar og hjálpar þessu þorpi, því ég er þess fullviss, að svo fremi, sem það verður ekki gert, þá bætist þetta hreppsfélag í hóp þeirra hreppa, sem biðja um hallærislánin.

Við 2. umr. fjárlaganna lá fyrir brtt. frá hv. þm. Seyðf. um fjárveitingu til að koma upp síldarbræðslustöð á Austurlandi. Eftir þeim kunnugleika, sem ég hefi á þörfinni fyrir slíka stöð eystra, þá hygg ég, að ekki verði hjá því komizt að raðast fyrr eða síðar í það að koma henni upp. Gæti þá verið ávinningur að hafa reynslu um rekstur lítillar bræðslustöðvar eins og þessarar stöðvar á Raufarhöfn. Tilraun þessa má líka gera án þess að leggja fé til kaupa á verksmiðjunni. Má því alltaf snúa aftur, ef reynslan bendir á, að ekki sé hægt að reka fyrirtækið með sæmilegri afkomu. Verði frv., samþ., hefi ég hugsað þá leið, að leitað verði samninga við verksmiðjueigandann, og þá því aðeins ráðizt í reksturinn, að sæmileg kjör verði í boði. Mér hefir jafnvel verið bent á, að það gæti komið til greina að miða leiguna við það vörumagn, sem verksmiðjan framleiddi. Hvort slík kjör yrðu fáanleg, skal ég ekkert um segja.

Að öllu því athuguðu, sem ég nú hefi bent á, vænti ég þess, að hv. dm. sjái sér fært að fylgja frv. þessu, svo það nái fram að ganga á þinginu, en á því er mikil nauðsyn.

Óska ég frv. svo vísað til sjútvn. að umr. lokinni.