20.04.1932
Neðri deild: 56. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1364 í C-deild Alþingistíðinda. (11132)

248. mál, lögskráning íslenskra manna á erlend fiskiskip

Haraldur Guðmundsson:

Ég verð að mæla mjög eindregið gegn því, að frv. þetta verði að lögum. Í fyrsta lagi verður því, sem hv. flm. telur að eigi að nást, með frv. — að fyrirbyggja, að íslenzkir menn ráði sig á erlend fiskiskip — ekki náð á meðan Íslendingar vilja það, þótt frv. verði samþ. Þó að slíkt bann sem þetta yrði lögtekið, þá er auðvelt fyrir Íslendinga að fara til annara landa og láta skrá sig þar. Það er því sýnt, að það, sem hv. flm. kallar aðaltilgang frv., næst aldrei, hvorki með lagaboði né öðru, svo fremi að eigendur erlendra fiskiskipa kosta kapps um að raða íslenzka menn á skipin og Íslendingar sjálfir vilja gefa sig í það.

En jafnvel þó að takast mætti að ná þessum tilgangi frv., þá mundi ég samt vera á móti því, að slík óhæfa sem þessi væri í lög tekin. Eins og hv. flm. er kunnugt, þá ganga hér atvinnulausir menn svo hundruðum eða þúsundum skiptir mikinn tíma úr úrinu, og þegar svo er ástatt, þykir mér langt gengið, ef löggjafarvaldið ætlar að svipta þá menn atvinnu, sem raðið hafa sig í þjónustu erlendra manna, og an þess að sjá þeim fyrir annari vinnu.

En auk þess vil ég benda á, að ef þessi stefna — ef stefnu skyldi kalla — yrði ofan á og færð út, þá mætti teygja hana nokkuð langt. Ég sé ekki betur en að banna verði þá atvinnurekendum þessa lands marga þá hluti, sem þeir hafa fram að þessu byggt á afkomu sína. Næsta sporið yrði sennilega að banna Íslendingum að nota erlendar vörur og kaupmönnum að selja þær. Það kann vel að vera, að hv. flm. þyki þetta rétt og sanngjarnt, en mér og mörgum öðrum finnst þetta barnaskapur einn og fjarstæða.

Ef útgerðarmenn, sem atvinnurekstur stunda hér heima, geta ekki séð sjómönnum fyrir nægri vinnu og vinnutækjum, þá eiga sjómenn ekki annars úrkosta en taka þeirri vinnu, sem býðst, og hvar sem hana er að fá. Að banna atvinnulausum manni að taka þá atvinnu, sem býðst, er svo mikil fúlmennska, að ekki getur komið til nokkurra mála, að Alþingi Íslendinga láti slíkt um sig spyrjast. Það er líka fullvíst, að þó að það tækist að fyrirbyggja, að Íslendingar ráði sig á erlend fiskiskip, þá væri ekki unnt með því að fyrirbyggja, að útlendingar notuðu sér fiskimiðin hér við land og lærðu sömu vinnubrögð um verkun fiskjar og Íslendingar nota á sínum veiðiskipum. Ég veit, að hv. flm. er það kunnugt, engu síður en mér, að frá því fyrsta að byrjað var að stunda botnvörpuveiðar hér við land, hefir það tíðkazt, að útlendingar hafa fengið innlenda menn til að vísa sér á fiskimiðin. Þessir menn hafa verið kallaðir „fiskiskipstjórar“, svo að nú má ætla, að á flestum erlendum botnvörpungum séu menn, sem orðnir eru jafnkunnir helztu fiskimiðum kringum land og Íslendingar sjálfir. Englendingar hafa haft íslenzka fiskiskipstjóra til að vísa sér á miðin og nauðþekkja þau orðið. Svo þó að nú bætist nýir menn í fiskiveiðaflotann kringum land, eins og t. d. Spánverjar, þá gætu þeir fengið þaulkunnuga Englendinga, að ég ekki tali um þjóðverja, til að vísa sér á beztu fiskimiðin.

Að öllu þessu athuguðu mun ég því greiða atkv. gegn því, að frv. þetta gangi til 2. umr. og nefndar.

En áður en ég sezt niður get ég ekki látið hjá líða að drepa lítilsháttar á þá stefnu; sem er að baki þessa frv., eins og raunar fjölmargra annara frv., sem stungið hafa upp höfðinu á hinu háa Alþingi í vetur. Og hún er sú, að nota neyðarastandið, sem nú er, til þess að tryggja með lagasetningum enn betur aðstöðumun atvinnurekenda, svo að þeim geti lánazt að nota kreppuna og atvinnuleysi landsmanna til að lækka kaup verkafólksins.

Þetta frv. er spor í þá átt; með því að banna innlendum atvinnuleysingjum að taka þeirri vinnu, sem býðst á erlendum fiskiskipum hér við land, er aukið á atvinnuleysið og þar með gert líklegra, að hægt verði að koma fram almennri kauplækkun í landinu.