20.04.1932
Neðri deild: 56. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1369 í C-deild Alþingistíðinda. (11135)

248. mál, lögskráning íslenskra manna á erlend fiskiskip

Haraldur Guðmundsson:

Hv. þm. Borgf. tók svo til orða, að ég hefði ekki gert mér ljóst, hver hætta sjávarútvegi okkar stafaði af því, að ísl. menn réðu sig á erlend fiskiskip. Ég hygg, að mér sé það eins ljóst og hv. flm. sjálfum. Ég vil í þessu sambandi minna hv. þm. á það, að því fer fjarri, að við Íslendingar kunnum einir að veiða með botnvörpu eða að við höfum fundið þá aðferð upp sjálfir. Ég veit ekki betur en að við hofum lært það af erlendum þjóðum. Ég held líka, að þótt við höfum duglega sjómenn, sem kunna vel sitt starf, þá sé alls ekki þar með sagt, að við eigum ekki ýmislegt ólært í því efni. Það er ekkert ólíklegt, að þegar íslenzku sjómennirnir eru komnir um borð í þessi stóru og fallegu nýtízku fiskiskip Spánverja, þá megi þeir læra notkun ýmissa véla og áhalda, sem þeir hafa ekki þekkt áður. Þannig getur dvöl þeirra á þessum skipum orðið til að auka hagnýta þekkingu þeirra á ýmsu, er snertir þennan atvinnuveg.

Eins og hv. 1. þm. Rang. benti á og hv. flm. tók reyndar fram líka, þá er engin ástæða til að ætla, að útgerð Spánverja hér við land velti á því, hvort þeir fá fáeina eða enga Íslendinga á skip sín. Hv. flm. tók réttilega fram, að á bak við þessa útgerð stæði spánska ríkið. Spánverjar eru því að gera hér tilraun til þess að afla sjálfir meira en verið hefir af þeim fiski, sem þeir þurfa, og eins og ég tók fram í minni fyrri ræðu, þá er það enginn vafi, að þótt Íslendingar fáist ekki á skip þeirra, þá er engin hætta á, að þeir geti ekki fengið á skip sín annara þjóða menn, sem eru kunnugir á miðum öllum og vanir að salta fisk. Hv. 1. þm. Rang., sem er þessu máli gagnkunnugur, komst svo að orði, að það gæti verið, að Spánverjum lærðist veiðin eitthvað seinna, ef þeir fengju ekki Íslendinga á skipin, en eins og ég hefi áður bent hv. flm. á, þá fer því fjarri, að Íslendingar séu útilokaðir frá að ráða sig á útlend skip þrátt fyrir þessi fyrirmæli, sem hann vill nú lögfesta. Hann heldur, að erlendu stéttarfélögin mundu banna slíkt. Þetta sýnir, að hann hefir ekki hugmynd um, hvernig þessi stéttarfélagsskapur er. Heldur hann kannske, að stéttarfélögin t. d. í Englandi eða Noregi banni íslenzkum mönnum að ráða sig á spánska togara? Nei, þau mundu alls ekki gera það.

Eins og áður hefir verið tekið fram, þá stendur spánska ríkið á bak við þessa útgerð. Ef við færum núi að sýna þá stífni og hörku að neita Spánverjum um menn á skipin, þá mundi það ekki aðeins verða til þess, að við misstum þá atvinnu, sem okkur býðst þarna, heldur gæti það og leitt til þess, að Spánverjar yrðu erfiðari viðfangs í öllum samningum við okkur, en við því megum við illa, bæði að því er snertir Spánverja og aðrar Miðjarðarhafsþjóðir, eins og hv. flm. veit.

Eftir þeim skýrslum, sem fyrir liggja allt fram til ársins 1929, þá hafa Þjóðverjar hagnazt á sinni togaraútgerð. Stóru útgerðarfélögin hafa borgað 8%–12% arð af hlutafénu, smærri félögin, sem hafa haft 5–8 skip, hafa greitt eitthvað minna, sum kannske ekki neitt. Sé þessi útkoma borin saman við það ástand, sem hér ríkir, eða eins og því hefir verið lýst hér í d. af þeim, sem hlut eiga að máli, þá virðist það sýnt, að aðrar þjóðir kunni að hagnýta sér þennan atvinnuveg ekki síður en við.

Í þessu sambandi vil ég spyrja hv. flm. þess, hvort hann sé reiðubúinn að veita þeim mönnum atvinnu, sem yrðu nú að fara í land, ef þetta frv. yrði lögfest. Hv. þm. sagði, að þessir menn hefðu ráðið sig á spönsku togarana fyrir lægra kaup en gilti á ísl. togurum. Eins og allir vita, þá hefir þetta ekki við nein rök að styðjast. Nægir í því sambandi að benda á grg. um þetta, sem formaður sjómannafélagsins hefir ritað, þar sem sýnt er fram á, að laun þessara manna eru í flestum tilfellum mun hærri en á ísl. togurum. Það þarf afarmikinn afla til að lifrarpeningar bæti upp þann mismun, sem er á fasta kaupinu. Á spönskum togurum er kaupið kr. 12,50 á dag, eða 375 kr. á mán., auk fæðis, en fastakaup á ísl. togurum er 210 kr. Þyrftu þá lifrarpeningar að vera til uppjafnaðar 165 kr. á mánuði, en allir vita, að svo miklir verða þeir ekki nema kannske á stöku skipum þá 2 man. vertíðarinnar, sem mest veiðist.

Ég þarf þá ekki að fara fleiri orðum um það, sem hv. flm. sagði. Ég hefi lýst afstöðu minni til frv. og sé enga ástæðu til, að það fari einu sinni til n.