20.04.1932
Neðri deild: 56. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1371 í C-deild Alþingistíðinda. (11136)

248. mál, lögskráning íslenskra manna á erlend fiskiskip

Flm. (Pétur Ottesen):

Ég verð að segja það, að mér kom það kynlega fyrir, að hv. 1. þm. Rang. skyldi andmæla frv. og þar með skorta skilning á þeirri nauðsyn, sem liggur á bak við þessar ráðstafanir, sem hér á gera, því að það er byggt á því að hafa víðari sjóndeildarhring en svo, að aðeins sé litið á augnablikið, sem yfir stendur. Það er enginn vafi á því, að af ráðningu þessara íslenzku manna á erlenda togara stafar hin mesta hætta. Hv. þm. Seyðf. minntist á það, að við Íslendingar hefðum ekki fundið upp að veiða í botnvörpu. Það er alveg rétt; það kunna fleiri að nota botnvörpu en við, en hér er ekki um það að ræða, heldur eru það miðin, sem við þekkjum manna bezt, og um verkun saltfiskjar stöndum við öllum öðrum framar, og það eru höfuðskilyrði fyrir því, hver árangur verður af útgerðinni.

Þá minntist hv. þm. á það, að engin hætta væri á, að Spánverjar legðu árar í bát, þó að þeir fengju ekki ísl. menn á skipin, þar sem ríkið stæði á bak við. Ég vil benda honum á það, að einmitt af því að ríkið stendur á bak við þetta, þá er sérstök ástæða fyrir okkur að vera hér á verði. Ríkið gerir þessa tilraun, og það veltur vitanlega mjög mikið á því, hvort haldið verður áfram, hvernig sú tilraun tekst í fyrstu. Þær tilraunir, sem Spánverjar gerðu til fiskveiða hér á síðastl. ári, leiddu af sár stórtjón fyrir spánska ríkið. Nú byggja Spánverjar allar vonir sínar um betri árangur á því að fá íslenzka menn á skipin, sem geta vísað þeim á miðin og kennt þeim að verka fiskinn. Það er þess vegna að miklu leyti valdi Íslendinga sjálfra, hvernig fer um þessa tilraun Spánverja að veiða sjálfir fiskinn á miðunum hér við land, í stað þess að kaupa hann af okkur. Viljum við kaupa atvinnu þeirra tiltölulega fáu manna, sem um stundarsakir eru á hinum erlendu togurum, því verði að stofna með því fiskiveiðunum, öðrum höfuðatvinnuvegi landsmanna, í bersýnilega hættu í framtíðinni? Þessu verður svarað með því, hvernig Alþingi snýst við þessu frv. Og með þessu svari er teningum kastað um það, hvort við látum Spánverjum í te þá aðstoð, sem þeim er nauðsynleg til þess að reka fiskveiðar hér við land með sæmilegum árangri — en það þýðir útrýming íslenzks saltfiskjar af Spánarmarkaði —, eða við hagnýtum í okkar þágu eingöngu þekkingu og leikni íslenzkra sjómanna við fiskveiðarnar og gerum allt, sem í okkar valdi stendur, til að halda í þá aðstöðu, sem við nú höfum til fisksölu á Spáni. Þetta ætti hv. 1. þm. Rang. og hv. þm. Seyðf. að vera fyllilega ljóst. Þeir mega ekki loka augunum fyrir þeirri augljósu hættu, sem við horfumst hér í augu við, né sporna við því, að við byrgjum brunninn áður en barnið er dottið í hann.

Hv. þm. Seyðf. sagði, að við yrðum að vera undirgefnir við Spánverja og það gæti orðið okkur hættulegt, ef þeir gætu ekki fengið hér menn á skip sín. Þetta er engin ástæða. Hvaða ástæðu hefðu Spánverjar til að reiðast okkur, þó að Íslendingar vilji ekki ráða sig á þessi skip þeirra?

Þá sagði hv. þm., að þýzka togaraútgerðin bæri sig vel, þó að Þjóðverjar hefðu enga Íslendinga sér til hjálpar. Þar til er því að svara, að það er viðurkennt af öllum, að kostnaður þjóðverja við útgerðina er margfalt minni en kostnaður við togaraútgerð hér á Íslandi. Það er aðalástæðan til þess, að útgerð Þjóðverja ber sig máske betur en togaraútgerðin hér á landi, og svo er hitt, að Þjóðverjar byggja ekki togaraútgerð sína nema að tiltölulega litlu leyti á fiskveiðum hér við land.

Hv. þm. benti enn á það, að útlendingar gætu fengið ísl. menn á fiskiskip sín með því að flytja þá fyrst til útlanda, en eins og ég hefi bent á áður, þá fylgir því mikill kostnaður og fyrirhöfn. Það er ekki heldur nokkur vafi, að stéttarfélögin í hverju landi beita áhrifum sínum gegn því, að útlendir menn verði lögskráðir þar. Ég vil spyrja hv. þm. Seyðf., hvað, hann heldi, að stéttarfélag sjómanna hér mundi segja, ef Íslendingar væru reknir af skipunum og annara þjóða menn teknir í staðinn. Ég hugsa, að þeir mundu beita sínum félagsáhrifum til að koma í veg fyrir það. Þessi félagsskapur er alþjóðafélagsskapur, og því er ekkert líklegra en að þeir beiti áhrifum sínum til þess, að félagsbræður þeirra grípi þarna í taumana, a. m. k. byggist það á þesskonar félagsskap, þegar verkamálaráðið í Reykjavík er að leggja afgreiðslubann á íslenzk skip í erlendum höfnum.

Hv. þm. spurði svo að lokum, hvort ég væri við því búinn að útvega þessum mönnum atvinnu, þegar þeir kæmu í land af spönsku togurunum. Ég hefi áður bent á það, að með því að ráða sig á þessi skip brjóta menn í bága við almenna þjóðarhagsmuni. Það bitnar á þeim og öðrum síðar, eins og ég hefi bent á áður. Ég skal líka taka það fram, að mér er ekki kunnugt um, að hann og hans flokksbræður útvegi þeim mönnum atvinnu, þegar þeir hafa látið þá gera verkfall, þeim sjálfum og öllum öðrum til stórtjóns og skaða. Ég held, að þeir megi þá ganga atvinnulausir fyrir þessum foringjum sínum.