20.04.1932
Neðri deild: 56. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1375 í C-deild Alþingistíðinda. (11138)

248. mál, lögskráning íslenskra manna á erlend fiskiskip

Flm. (Pétur Ottesen):

Það er von, að hæstv. forseta þyki þessar umr. nokkuð langdregnar; en hverjir eru það, sem valda því, að úr umr. hefir teygzt svo mjög? (HV: Flutningsmaðurinn). Nei, það var eiginlega búið að slíta umr. að lokinni framsöguræðu minni, en þá risu þessir hv. andmælendur upp og vildu ólmir fá að tala. Það er því eiginlega í hálfgerðu trassi við þingsköp, að nú að þessu sinni var komið af stað deilum um þetta mál.

Hv. þm. Seyðf. sagði, að þó að þetta frv. yrði samþ., þá mundi ekki verða girt fyrir það, að Íslendingar réðu sig á erlenda togara, en ég hefi margsinnis bent á þá örðugleika og hömlur, sem á því eru, og að því fylgir mikill kostnaður. Það er því ástæðulaust að ætla, að nokkur brögð yrðu að þessu. Hitt er svo augljóst mál, að því verður ekki mótmælt, að það er afskaplega mikilsvert fyrir útlendinga að fá íslenzka sjómenn á skip sín. Það getur hreint og beint oltið á því, hvert áframhald verður á þessum útgerðartilraunum Spánverja, hvort ísl. sjómenn leggja sitt lóð þar í skálina eða ekki. Og þá sjáum við greinilega, hvað Íslendingar bera úr býtum fyrir þessa augnabliksatvinnu, þegar Spánverjar eru búnir að læra af þeim og reka þá svo í land úr skipunum að því búnu. Þá sjáum við ennfremur, hvað þessir víðsýnu og þjóðhollu!! leiðtogar verkamanna, sem berjast á móti því, að sett verði undir þennan leka, hafa verið framsýnir, eða hitt þó heldur.

Hv. þm. Seyðf. sagði að ég hefði æfinlega verið á móti öllum till. til þess að auka atvinnu í landinu og koma á atvinnubótum. En þetta eru rakalaus ósannindi (Forseti hringir), alveg rakalaus ósannindi. Ég hefi ekki verið á móti þeim till. til atvinnubóta, sem hafa verið á viti byggðar og sanngirni. Þvert á móti hefi ég bæði nú á þessu þingi og áður flutt ýmsar slíkar tillögur, sem sócíalistafulltrúarnir hér í deildinni hafa lagzt á móti og drepið. Hitt er annað mál, að ég fylgi aldrei hinum öfgafullu till. hv. þm. Seyðf. í þessu efni. — Ég þarf svo ekki að rökstyðja þetta nánar, enda er þetta aðeins stutt aths., og ásökun til hv. þm. á hendur mér í þessu efni var líka algerlega órökstudd.